„Alltof margir tæknifeilar“

Andri Erlingsson í strangri gæslu FH-inga
Andri Erlingsson í strangri gæslu FH-inga Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, hafði ekki mikla ástæðu til að gleðjast yfir frammistöðu sinna leikmanna í dag er liðið tapaði 28:36 fyrir FH-ingum í 2. leik undanúrslita Íslandsmótsins í handbolta. Hafnfirðingar leiða 2:0 í einvíginu og geta tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu á sunnudaginn í Kaplakrika.

„Ég hugsa að það hafi verið tæknifeilar, við erum með alltof marga tæknifeila, við erum of ragir þarna í seinni hálfleik og hættum að spila okkar leik. Það þarf að vera aðeins meiri stjórnun og yfirvegun, kannski er ég ekki að ná að hvíla minn leikstjórnanda nógu vel, Elmar hefur þó stýrt þessu vel og Dagur hjálpað honum, þeir líka hjálpast að,“ sagði Magnús þegar hann var spurður hver munurinn á liðunum í dag hafi verið.

„Ég veit ekki hvað það var nákvæmlega, ég hugsa að ég þurfi að reyna að stýra álaginu betur, til þess að hafa menn með ferskar fætur og ferskan haus inni á vellinum, tæknifeilar og annað skrifast yfirleitt á þreytu og ef ég er með þreytta menn inná þá skrifast það á mig.“

Magnús og Kári Kristján
Magnús og Kári Kristján Ljósmynd/Sigfús Gunnar



Það hlýtur að hafa verið leiðinlegt fyrir Magnús að ná ekki að kalla fram betri frammistöðu fyrir framan fjölmarga stuðningsmenn ÍBV sem studdu liðið vel í dag.

„Það er það sárasta í þessu, það er auðvitað fúlt að tapa leiknum en að tapa fyrir framan allt þetta fólk er eitthvað sem er erfitt að lýsa því, þetta er svona svekkelsi. Mætingin er engu lík, það væri hægt að skrifa heila blaðagrein um hvað er að gerast hérna. Þetta er geggjað og við erum gríðarlega þakklátir fyrir stuðninginn en á sama tíma ótrúlega svekktir að ná ekki að setja upp betri sýningu.“

Magnús var ekki lengi að svara því hvort liðið ætti tromp uppi í erminni til þess að leggja FH að velli í næsta leik.

„Já, við erum með það. Við töldum okkur líka vera með það fyrir leikinn í dag, stundum spilast úr því en stundum ekki, við erum enn fullir sjálfstrausts en það er gríðarlegur karakter í þessu liði, það má ekki gleyma því. Það er yfirleitt þegar í harðbakkann slær að þá þjappa Eyjamenn sér saman, ég þarf að leggjast aðeins yfir þetta frá sjónarhóli okkar þjálfaranna og sjá hvað ég get gert betur, strákarnir hvíla sig, safna kröftum og mæta svo klárir í næsta leik.“

Hefur Magnús trú á því að Eyjamenn muni fjölmenna í Kaplakrikann á sunnudaginn þrátt fyrir þessi tvö stóru töp gegn FH í vikunni?

„Já, ég hef trú á því. Þetta er ótrúlegt þetta samfélag, það flykkist alltaf á bakvið liðin sín, það kæmi mér mjög á óvart ef það yrði ekki önnur eins stemning næsta sunnudag eins og var í dag og síðasta sunnudag. Það eru forréttindi að fá að spila fyrir framan allt þetta fólk og í þessari stemningu, það var líka geggjað hve vel FH-ingar mættu með sitt fólk, þeir eiga hrós skilið fyrir það og það var mikil stemning hérna í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert