FH í úrslit án Arons Pálmarssonar

Símon Michael Guðjónsson fremstur í flokki FH-inga í kvöld.
Símon Michael Guðjónsson fremstur í flokki FH-inga í kvöld. mbl.is/Eyþór

FH leikur til úrslita eftir öruggan sigur á ÍBV 34:27 í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld. 

Staðan í rimmunni var 2:2 eftir að FH vann fyrstu tvo leikina og ÍBV næstu tvo. FH mætir annað hvort Aftureldingu eða Val í úrslitum Íslandsmótsins en þar er staðan 2:1 fyrir Mosfellinga. 

FH lék án Arons Pálmarssonar sem meiddist á fingri seint í fjórða leiknum og var þá ekki meira með. Hann var ekki á skýrslu í kvöld og framhaldið óljóst hvað hann varðar. 

FH-ingar þjöppuðu sér vel saman eftir þetta áfall því þeir byrjuðu leikinn miklu betur og komust í 3:0. ÍBV náði aldrei að jafna eftir það en minnkaði muninn niður í eitt mark um tíma í fyrri hálfleik. Að loknum fyrri hálfleik var staðan hins vegar 17:13 fyrir FH. 

Þessi æsispennandi rimma liðanna í undanúrslitum lauk á óvæntan hátt því spennuna vantaði í oddaleikinn í síðari hálfleik. FH-ingar byrjuðu einnig betur í upphafi síðari hálfleiks og náðu fljótlega sex marka forskoti. Eyjamenn reyndu að vinna sig inn í leikinn og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk. Lengra komust þeir ekki og FH-ingar sigu fram úr á lokakaflanum. 

Öflug vörn hjá FH

Vörnin hjá FH var mjög öflug á köflum í kvöld, jafnvel þótt Aron hafi vantað sem er virkilega góður varnarmaður. Með góðum varnarleik geta lið unnið bikara í íþróttinni og FH-ingar geta byggt á þessari frammistöðu. Daníel Freyr þurfti ekki að eiga stórleik í markinu en átti mikilvægar stemningsvörslur. Til að mynda þegar hann varði tvívegis vítaköst frá Elmari Erlingssyni sem fór á kostum í þriðja leik liðanna. 

FH-ingum tókst einhvern veginn að draga tennurnar úr Eyjamönnum með góðri vörn. Enginn í liði ÍBV átti stórleik í sókninni þótt nokkrir hafi komist ágætlega frá sínu eins og reynsluboltinn Kári Kristján Kristjánsson. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvernig Eyjamenn nýttu leikmannahópinn. Dagur Arnarsson kom ferskur inn á í fyrri hálfleik og skoraði þá þrjú mörk en sást ekki aftur fyrr en munurinn var orðinn átta mörk eða svo og lítið eftir. Við þessar kringumstæður hefðu Eyjamenn þurft á betri markvörslu að halda en sú varð ekki raunin.

Nokkrar vísbendingar eru um að Eyjamenn hafi ekki verið alveg nægilega einbeittir til að vinna mikilvægan oddaleik. Klaufalegar brottvísanir í eitt eða tvö skipti þegar þeir voru að reyna að vinna sig inn í leikinn. Þegar þeir áttu möguleika í síðari hálfleik að minnka muninn niður í þrjú mörk og voru manni fleiri þá komst FH inn í sendingu og skoraði í framhaldinu næstu tvö mörk. Í oddaleik í undanúrslitum geta menn ekki leyft sér mörg slík mistök. 

Sigur fyrir Sigurstein

Ef til vill mætti segja að sigurinn í kvöld sé viss sigur fyrir Sigurstein Arndal þjálfara FH. Athyglin hefur verið á Aroni Pálmarssyni í vetur og heimkomu hans í FH. Skiljanlega enda heimsklassa leikmaður sem hefði getað gengið í hvaða lið sem er í Evrópu. Án hans í kvöld náði FH að vinna sannfærandi sigur þar sem margir leikmenn lögðu í púkkið í vörn og sókn. Góð liðsframmistaða og sjálfstraustið virtist í fínu lagi hjá FH-ingum. 

Hinn 36 ára gamli Ásbjörn Friðriksson var drjúgur fyrir FH þegar liðið þurfti að stilla upp í sókn. Skilaði mörkum og stoðsendingum líkt og þegar hann var upp á sitt besta. Munar um minna. Símon Michael Guðjónsson mjög áberandi og hann var markahæstur með 10 mörk. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 34:27 ÍBV opna loka
60. mín. FH tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert