Smá sjokk að sjá alla í brekkunni

Frá vinstri: Vigdís, Heiðdís, Eyvör, Elísabet og Linda.
Frá vinstri: Vigdís, Heiðdís, Eyvör, Elísabet og Linda. mbl.is/Þóra Birna

Fimm ungar og prúðklæddar hestakonur eru í fullu starfi á Landsmóti við að afhenda verðlaun, en þær voru einnig að keppa og sjá fyrir sér að í framtíðinni muni þær taka við verðlaunum í stað þess að afhenda þau. 

Linda Guðbjörg Friðriksdóttir, 11 ára, Elísabet Líf Sigvaldadóttir, 13 ára og Eyvör Vaka Guðmundsdóttir, 12 ára, eru allar í barnaflokki og koma frá hestamannafélaginu Geysi. 

Heiðdís Fjóla T. Jónsdóttir og Vigdís Anna Hjaltadóttir eru báðar 14 ára og keppa í unglingaflokki fyrir hestamannafélagið Sleipni.

Stelpurnar sjá um að afhenda verðlaun núna en ætla sér …
Stelpurnar sjá um að afhenda verðlaun núna en ætla sér að taka á móti verðlaunum í framtíðinni. mbl.is/Þóra Birna

Nóg af fyrirmyndum 

Allar fimm stefna þær á atvinnumennsku í hestaíþróttum í framtíðinni. Linda segir að Glódís Rún Sigurðardóttir, knapi í ungmennaflokki sem hefur gert það gott á keppnisvellinum frá unga aldri, sé hennar fyrirmynd. Eyvör nefnir svo knapann Helgu Unu Björnsdóttur, sem hefur staðið sig vel á Landsmótinu í meistaraflokki. 

Elísabet á þó ekki langt að sækja sína fyrirmynd, en hún kveðst líta upp til föður síns, sem er hestamaður sjálfur og heitir Sigvaldi Lárus Guðmundsson. 

Eyvör keppir á jólagjöfinni

Linda, Elísabet og Vigdís og Heiðdís fengu allar sín keppnishross í hendurnar örfáum dögum fyrir úrtökumót og höfðu því skamman tíma til að kynnast hestinum og undirbúa sig, en hafa staðið í ströngu síðan við æfingar. Linda viðurkennir að það hafi verið svolítið ógnvekjandi að fara á stökk í fyrsta skipti á klár sem hún þekkti lítið, en svo gekk það bara vel. 

Eyvör fékk merina sem hún keppti á í jólagjöf, eftir að hafa verið að þjálfa hana í einhvern tíma á undan. „Hún er alveg geggjuð.“

Þrátt fyrir ungan aldur hafa flestar stelpurnar hlotið þó nokkra reynslu af keppni í gegnum tíðina. Þær hafa þó aldrei áður keppt á Landsmóti hestamanna, og lýsa því sem skemmtilegri upplifun, enda fjölmennt og glæsilegt mót.

Þarf að kynnast vellinum

„Ég fór alveg í smá sjokk þegar ég sá alla í brekkunni þarna," segir Elísabet, en hún komst í B-úrslit og keppti því í dag, en það gerði Eyvör líka. 

Töluvert meiri umgjörð er í kringum Landsmót en á venjulegum mótum, meðal annars fánar, auglýsingaskilti og sjónvarpsskjáir. 

Stelpurnar voru sammála um það að ef hesturinn er búinn að fá að kynnast vellinum á undan, kippi hann sér ekki mikið upp við skjáinn. Linda segir þó að sinn hestur hafi aðeins kippt sér upp við klappið í áhorfendum og Eyvör segir sinn hafa orðið smeykan við fánana.

Spurðar hverju þær séu spenntastar fyrir á Landsmótinu segjast þær einfaldlega hlakka til þess að skemmta sér.

Einróma spámenn

Þá spáðu þær í spilin fyrir úrslit í meistaraflokknum og voru grunsamlega sammála.

Ef spá þeirra rætist mun Þráinn frá Flagbjarnarholti, sem Þórarinn Eymundsson situr, sigra A-flokk gæðinga.

Ljósvaki frá Valstrýtu er að þeirra mati sigurstranglegastur í B-flokki gæðinga, en hann situr Árni Björn Pálsson.

Þegar kom að töltinu urðu þær að hugsa sig aðeins um en voru svo einróma um það að Árni Björn Pálsson hlyti að taka það líka, á hestinum Ljúf frá Torfunesi. Reyndust þær sannspár þar sem Árni Björn og Ljúfur sigruðu töltið seinna um kvöldið með einkunnina 9,17. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert