Tryggja að fólk mæti ekki með rangan hest

Sigurgeir Jóhannsson járningarmaður stendur vaktina í fótaskoðun, með örmerkjaskannann að …
Sigurgeir Jóhannsson járningarmaður stendur vaktina í fótaskoðun, með örmerkjaskannann að vopni. mbl.is/Hákon Pálsson

Vaskir járningamenn standa vaktina í fótaskoðun á Landsmóti hestamanna, þar sem þeir ganga úr skugga um að búnaður og ástand á hestum sé eins og hann á að vera. 

Sigurgeir Jóhannsson, járningamaður í fótaskoðun, segir mótið hafa gengið vel. Hann var í sama hlutverki á síðasta Landsmóti, árið 2018, en hann kveðst sjá mun á gæðum járninganna með ári hverju. 

„Við erum búnir að vera að mæla hófa og skoða búnaðinn. Áverkar hafa verið í algeru lágmarki til þessa og járningarnar eru virkilega góðar.“

„Pottþétt gerst einhvern tíma“

Fótaskoðunarmennirnir taka á móti keppendum ýmist fyrir eða eftir að þeir hafa lokið sýningu. Þá er dreginn fram örmerkjaskanni og honum rennt yfir hestinn. Niðurstöður eru svo bornar saman við gagnagrunn og það sannreynt að hesturinn sé sá sem knapinn segi hann vera. 

Enn hefur ekkert tilvik komið upp á mótinu þar sem knapi reynir að svindla á þessu og mætir með rangan hest til keppni. „Það hefur samt pottþétt gerst einhvern tíma.“

Knapar hita upp og fá leiðsögn ráðgjafa sinna inn í …
Knapar hita upp og fá leiðsögn ráðgjafa sinna inn í reiðhöllinni áður en þeir ríða inn á völlinn. mbl.is/Hákon Pálsson

Hlífarnar mega ekki vera of þungar

Þá eru skeifurnar skoðaðar og farið yfir járninguna, einkum hvort svokallaðir kransar, kítt eða botnar séu milli skeifunnar og hófsins, og þyngd þess. 

Í keppni tíðkast að setja hvítar hlífar á framfætur hestanna til þess að bæta gang þeirra eða auka fótaburð. Þessar hlífar eru jafnan þyngdar, en fótabúnaður má þó ekki fara yfir tiltekna þyngd, samkvæmt reglugerð FEIF, alþjóðasambands hestamanna, sem miðar að því að tryggja velferð hrossa.

„Við vigtum hlífarnar og skoðum beislisbúnaðinn, en þetta þarf allt að vera í samræmi við reglugerðina.“

Skeifur eru skoðaðar, hófar mældir og hlífar vigtaðar.
Skeifur eru skoðaðar, hófar mældir og hlífar vigtaðar. mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert