„Við búumst við sigri,“ var það fyrsta sem Heimir Hallgrímsson sagði þegar þeir Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í Volgograd í dag, daginn fyrir leikinn við Nígeríu á HM í knattspyrnu.
Mbl.is fylgdist með fundinum í beinni textalýsingu sem sjá má hér að neðan en á meðal þess sem fram kom er að ljóst er að breytingar verða gerðar á íslenska liðinu. Jóhann Berg Guðmundsson tekur nær örugglega ekki þátt en er á góðum batavegi.
Heimir segir einn helsta styrk nígeríska liðsins felast í líkamlegum burðum, en hrósaði liðinu með ýmsum hætti: „Styrkleiki þeirra felst í líkamlega þættinum. Þeir eru líkamlega sterkir, fljótir og miklir íþróttamenn. Þeir hafa mikla hlaupagetu, eru beinskeyttir og mjög gott skyndisóknalið. Ég verð að hrósa þjálfara þeirra fyrir skipulagið. Ef að maður skoðar síðustu leiki þeirra sér maður hvað þeir eru orðnir vakandi fyrir því að halda góðu skipulagi. Þeir hafa svo margt sem gott fótboltalið þarf, og þegar maður skoðar einstaklingana þá spila þeir á hæsta stigi úti um Evrópu. Þetta er mjög gott lið með mikið af einstaklingshæfileikum,“ sagði Heimir. Þá sagði hann Nígeríu hafa leikmenn sem geti vel varist föstum leikatriðum Íslands:
„Ndidi og Ighalo eru tveir af bestu skallamönnum mótsins. Við undirbúum föst leikatriði gegn öllum liðum, og fengum sömu spurningu fyrir Argentínuleikinn. Nígería fékk á sig tvö mörk eftir hornspyrnur í síðasta leik, svo sjálfstraustið er kannski ekki mikið í föstum leikatriðum, og við verðum að reyna að nýta öll færi sem við fáum inni í teignum eftir þau,“ sagði Heimir.
Frekari fréttir má lesa hér á mbl.is og ummæli af fundinum í textalýsingu hér að neðan. Nígería heldur sinn blaðamannafund kl. 14 að íslenskum tíma og verður einnig fylgst með honum í beinni textalýsingu.