Ingi Þór Steinþórsson stýrði KR til sigurs á Íslandsmótinu í körfuknattleik í kvöld en hann gerði það einnig árið 2000. Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinskij urðu meistarar í sjöunda sinn.
Eins og fram hefur komið setti KR met með því að vinna titilinn sjötta árið í röð. Í fyrstu fimm skiptin undir stjórn Finns Freys Stefánssonar og nú undir stjórn Inga Þórs.
Ingi hefur gert þrjú lið að meisturum, tvö karlalið og eitt kvennalið. Karlalið KR 2000 og 2019 en hann gerði karlaliðs Snæfells að meisturum 2010. Þá gerði hann kvennalið Snæfells að meisturum í kvennaflokki þrjú ár í röð frá 2014 - 2016. Því má bæta við að Ingi var aðstoðarþjálfari KR þegar liðið varð meistari 2009.
Helgi Már Magnússon bætti við sínum sjöundaÍslandsmeistaratitli. Hann vann fyrst sem ungur leikmaður árið 2000 og aftur þegar KR stillti upp draumaliði sínu árið 2009. Hann vann einnig 2014, 2015 og 2016 en hugðist þá hætta vegna búferlaflutninga til Bandaríkjanna. Hann var með í úrslitakeppninni í fyrra þegar KR vann og flutti nú heim um áramót. 2007 og 2011 var Helgi í atvinnumennsku.
Pavel Ermolinskij hefur einnig sjö sinnum orðið Íslandsmeistari. Síðustu sex skipti en einnig árið 2011. Hann er eini leikmaðurinn sem unnið hefur með KR sex ár í röð. Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson unnu fimm ár í röð en hurfu á braut síðasta sumar.
Fyrirliðinn Jón Arnór Stefánsson hefur fimm sinnum orðið meistari með KR en hefur aðeins leikið sjö tímabil hérlendis, þrjú þeirra ungur að árum. Fyrsta titilinn vann Jón sem ungur leikmaður árið 2000 og aftur 2009 þegar hann kom heim úr atvinnumennsku í eitt ár. Jón flutti heim sumarið 2016 og hefur unnið síðustu þrjú ár með KR.
Sigurður Þorvaldsson varð meistari í fjórða sinn og er eini leikmaðurinn í liðinu sem unnið hefur með tveimur liðum. Sigurður, sem fékk lítið að spreyta sig að spreyta sig að þessu sinni, hefur unnið síðustu þrjú árin með KR en varð einnig meistari með Snæfelli árið 2010.
Björn Kristjánsson varð meistari með KR í fjórða skipti: 2015, 2016, 2018 og 2019 en 2017 lék hann með Njarðvík.
Finnur Atli Magnússon var meistari með KR í þriðja skipti: 2011, 2015 og 2019 en í millitíðinni hefur hann leikið með Snæfelli og Haukum.
Kristófer Acox varð meistari með KR þriðja árið í röð.
Emil Barja varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn en hann lék áður með Haukum og komst einu sinni í úrslit með liðinu.
Vilhjálmur Jensson hefur verið í leikmannahópi KR öll sex árin en ekki komið mikið við sögu.