Skoraði 50 stig í fyrsta sigrinum – útlitið dökkt hjá Lakers

Joel Embiid átti stórleik í nótt.
Joel Embiid átti stórleik í nótt. AFP/Tim Nwachukwu

Joel Embiid átti sinn besta leik á ferlinum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar þegar hann skoraði 50 stig í 125:114-sigri Philadelphia 76ers á New York Knicks í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar í nótt.

Staðan í einvíginu er nú 2:1, New York í vil, en fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Auk þess að skora 50 stig tók Embiid átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Stigahæstur hjá New York var Jalen Brunson með 39 stig og 13 stoðsendingar.

Einu tapi frá sumarfríi

LA Lakers tapaði þriðja leiknum í röð gegn ríkjandi NBA-meisturum Denver Nuggets í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar.

Denver vann 112:105, leiðir 3:0 í einvíginu og er því einum sigri frá því að sópa Lakers í sumarfrí.

Aaron Gordon var stigahæstur í liði Denver með 29 stig og 15 fráköst. Nikola Jokic bætti við 24 stigum, 15 fráköstum og níu stoðsendingum auk þess sem Michael Porter Jr. skoraði 20 stig og tók tíu fráköst.

Anthony Davis var stigahæstur í leiknum með 33 stig fyrir Lakers og tók hann auk þess 15 fráköst.

LeBron James bætti við 26 stigum, sex fráköstum og níu stoðsendingum og Austin Reaves var með 22 stig og fimm fráköst.

Orlando komið á blað

Orlando Magic hélt sér á lífi í einvígi sínu gegn Cleveland Cavaliers með öruggum sigri í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar, 121:83.

Staðan er nú 2:1, Cleveland í vil.

Paolo Banchero fór fyrir Orlando er hann skoraði 31 stig, tók 14 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Jalen Suggs bætti við 24 stigum.

Stigahæstir hjá Cleveland voru Caris LeVert og Jarrett Allen með 15 stig hvor. Allen tók auk þess átta fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert