Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 7 |
Landshluti | Austurland |
Atvinnugrein | Framleiðsla |
Starfsemi | Frysting fiskafurða, krabbadýra og lindýra |
Framkvæmdastjóri | Gunnþór Björn Ingvason |
Fyrri ár á listanum | 2012–2022 |
Eignir | 150.530.298 |
Skuldir | 67.400.110 |
Eigið fé | 83.130.188 |
Eiginfjárhlutfall | 55,2% |
Þekktir hluthafar | 20 |
Endanlegir eigendur | 56 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 13 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 40 |
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, segir stríðs- og efnahagsástand í heiminum hafa víðtæk áhrif á markaðinn í sjávarútvegi. Segir hann Síldarvinnsluna hafa mætt töluverðum áskorunum síðustu misseri vegna heimsástandsins.
„Í gegnum tíðina hefur ástand markaða sveiflast en þeir markaðir sem við störfum á eru um allan heim þar sem fiskafurðir okkar fara víða. Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif, hærri vextir, dýrari framfærsla, hærri orkukostnaður og margir aðrir áhrifsþættir hafa haft sitt að segja fyrir okkur. Allt kemur þetta niður á neyslumynstri fólks og bitnar víða á fiskneyslu sem dregur úr eftirspurn þegar fólk leitar í ódýrara prótein,“ segir Gunnþór.
Í fararbroddi í fjárfestingum
Síldarvinnslan er rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki sem stofnað var árið 1957 og heldur úti fjölþættri starfsemi vítt og breitt um allt land þó svo að höfuðstöðvarnar séu á Austurlandi. Störf innan fyrirtækisins eru af fjölbreyttum toga en drjúgur hluti starfsmannahóps Síldarvinnslunnar starfar á sjó eða í fiskvinnslu.
„Fyrirtækið leggur bæði áherslu á veiðar og vinnslu á uppsjávar- og botnfisktegundum og hefur reynt að vera í fararbroddi hvað snertir fjárfestingar á nýrri tækni. Síðustu ár hefur mikil samstaða ríkt innan fyrirtækisins um slíkar fjárfestingar,“ segir Gunnþór en bendir á að flest öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins séu nokkuð samstiga í að hagnýta þær tækninýjungar sem ryðja sér til rúms hverju sinni.
Gunnþór segir Síldarvinnsluna leggja allt kapp á að efla starfsemi sína með það fyrir augum að auka verðmætasköpun.
„Síldarvinnslan vill tryggja að starfsemin sé í góðri sátt við umhverfið, starfsfólk, hluthafa og þau samfélög sem fyrirtækið starfar í. Við stefnum alltaf að einu markmiði og það er að efla starfsemina. Þrátt fyrir tímabundnar áskoranir sem ögra starfseminni þá sjáum við mikil tækifæri í náinni framtíð og til lengri tíma litið. Sérstaklega með auknu samstarfi fyrirtækja þegar kemur að markaðsstarfi og aukinni sköpun á verðmætum,“ segir hann.
Fyllsta jafnréttis gætt
Síldarvinnslan hefur verið með jafnlaunavottun frá árinu 2018. Að sögn Gunnþórs skiptir sú vottun miklu máli því hún sýni að stefnu Síldarvinnslunnar í jafnréttismálum hefur verið framfylgt með skilvirkum hætti.
„Framkvæmdar hafa verið óháðar jafnlaunaúttektir til að tryggja að kynjum sé ekki mismunað í launum. Síldarvinnslunni er mikið í mun að fyllsta jafnréttis sé gætt bæði hvað varðar laun og tækifæri innan fyrirtækisins. Jafnlaunavottunin staðfestir að jafnrétti til launa sé til staðar hjá Síldarvinnslunni og það er mjög ánægjulegt,“ útskýrir Gunnþór.
Mannauðurinn meginástæðan
Undanfarin ár hefur Síldarvinnslan einnig fengið þann gæðastimpil að vera á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo. Gunnþór þakkar mannauði Síldarvinnslunnar það og segir styrkleika fyrirtækisins alfarið liggja í mannauðinum.
„Meginástæðan er ugglaust sú að fyrirtækið hefur yfir að ráða framúrskarandi starfsfólki. Við höfum einsett okkur að halda uppi góðum starfsanda með því að leggja áherslu á gott og einlægt samband á milli starfsfólks og stjórnenda,“ segir hann.
„Hjá Síldarvinnslunni eru vinnustaðirnir margir og dreifðir, bæði á sjó og landi. Á vinnustöðunum er rík áhersla lögð á að gagnkvæmt traust ríki á milli starfsfólks og stjórnenda og að tekið sé á öllum málum með sanngirni,“ lýsir Gunnþór og bendir á að starfsstöðvar Síldarvinnslunnar séu iðulega starfræktar í litlum samfélögum þar sem sterk félagsleg tengsl og mikil nánd sé ríkjandi.
„Vinnuálag okkar starfsfólks er breytilegt eftir starfsemi en oft er mikið álag á okkar fólki. Til að mæta því og halda uppi vinnustaðamenningu til eftirbreytni stendur fyrirtækið reglulega fyrir námskeiðum sem starfsfólk er hvatt til að hagnýta sér. Má til dæmis nefna námskeið um næringu, svefn og hreyfingu. Svo eru líka reglulega farnar starfsmannaferðir erlendis, öllum til ánægju og yndisauka,“ segir hann og telur slíkar ferðir efla liðsheild Síldarvinnslunnar.
„Á hverjum degi fylgja ný tækifæri fyrir starfsemi Síldarvinnslunnar sem ekki væri hægt að nýta nema með óbilandi dugnaði okkar starfsfólks,“ segir Gunnþór að lokum.
asthildur@mbl.is