Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 162 |
Landshluti | Vesturland |
Atvinnugrein | Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð |
Starfsemi | Bygging annarra ótalinna mannvirkja |
Framkvæmdastjóri | Atli Þór Jóhannsson |
Fyrri ár á listanum | 2016–2022 |
Eignir | 3.747.965 |
Skuldir | 1.618.994 |
Eigið fé | 2.128.971 |
Eiginfjárhlutfall | 56,8% |
Þekktir hluthafar | 1 |
Endanlegir eigendur | 1 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 4 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 5 |
Verktakafyrirtækið Borgarverk hefur frá 1982 sérhæft sig í jarð- og vegavinnuframkvæmdum. Fyrirtækið var stofnað árið 1974 en starfsemi þess má rekja aftur til ársins 1955 og hefur það frá fyrstu tíð stundað almenn verktakastörf á sviði jarðvinnslu.
Hinn 1. september síðastliðinn voru gerðar breytingar á framkvæmdastjórn Borgarverks þegar Atli Þór Jóhannsson var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Tók hann við af Óskari Sigvaldasyni sem sinnt hafði starfinu af mikilli staðfestu frá árinu 2005.
„Ég er mjög spenntur fyrir nýjum tækifærum hjá Borgarverki og tek við mjög góðu búi,“ segir Atli Þór, nýr framkvæmdastjóri Borgarverks. „Ég þurfti ekki mikinn umhugsunarfrest. Mér leist strax vel á þetta og ég vona að öllum hafi litist jafn vel á mig,“ segir hann sposkur.
Aukin virðing borin fyrir bransanum
Hjá Borgarverki starfar stór og reynslumikill hundrað manna hópur sem bætist gjarnan í yfir sumartímann. Að sögn Atla knýr starfsmannahópurinn fram farsæld fyrirtækisins sem hann segir byggja á háum starfsaldri og mikilli fagmennsku.
„Þegar mest lætur erum við í kringum 140 talsins sem störfum hjá Borgarverki. Sumarið er mikill álagstími hjá okkur því þá er ekkert frost í jörðu og ekkert sem hamlar okkur. Þá fáum við til okkar fleira gott starfsfólk og ekki óalgengt að unga fólkið sæki í sumarstörf hjá okkur,“ segir Atli og lýsir daglegum verkefnum starfsmanna.
„Borgarverk er þekkt fyrir góðar vegaklæðingar og vel unna vegagerð en hefur á síðustu árum orðið umsvifamikið í gatnagerð fyrir sveitarfélögin,“ segir hann en helstu verkefni Borgarverks snúa ýmist að nýlagningu eða viðhaldi á vegum, jarðvinnu og snjómokstri.
„Verkefnin eru af fjölbreyttum toga en við vinnum mikið með gröfur og ýmis stór tæki sem þarf ákveðna kunnáttu og þekkingu til að stjórna,“ segir Atli og heldur áfram.
„Okkur þykir gaman að sjá nýtt og ungt fólk blómstra í starfi hjá okkur og hvetjum það til að fara og taka meiraprófið svo það geti haldið áfram að vaxa með okkur. Við fögnum því að nú býður Tækniskólinn upp á námsleið í jarðtækni og þangað reynum við að hvetja þá að fara sem eru áhugasamir um þennan bransa og vilja bæta við sig menntun og þekkingu,“ segir hann og bendir á að með tíð og tíma hafi viðhorf samfélagsins gagnvart vegavinnustéttinni breyst og hún hlotið meiri virðingu en áður.
„Þetta er lúmsk tækni.“
Góður tækjakostur nauðsynlegur
Borgarverk býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu á jarð- og vegaframkvæmdum þar sem góður tækjakostur leikur stórt hlutverk í afkastagetu fyrirtækisins.
„Þetta krefst mikillar skipulagningar en við erum búin rosalega góðum tækjakosti sem er hvorki of nýr né of gamall. Það er ákveðin list að halda sig við tæki sem reynast góð fjárfesting á hverju ári til að halda tækjaflotanum við á eins ábyrgan hátt og kostur er hverju sinni því það þarf að gæta hófs í þessu. Það er engin nauðsyn að vera alltaf með nýjustu og flottustu tækin, þau henta ekkert endilega alltaf í það sem við erum að fást við frá degi til dags. Við erum í góðu samstarfi við góða birgja sem útvega okkur tæki á örskotsstundu þegar verkin kalla. Það er gulls ígildi.“ segir hann.
Atli segir verkefni Borgarverks þekkjast af fagmennsku, áreiðanleika og gæðum.
„Þeir sem ráða okkur til verka vita að þeir geta treyst vel unnum verkum. Borgarverk er með gott og traust orðspor. Fyrri verk sem Borgarverk hefur skilað af sér hafa talað máli sínu, sem hefur gert það að verkum að fyrirtækið er eftirsótt.“
Að sögn Atla er engra breytinga að vænta á næstu misserum hjá Borgarverki. Hann segir að sér sé mikið í mun að viðhalda gömlum og góðum gildum sem hafa verið við lýði hjá Borgarverki í áranna rás.
„Það verða engar breytingar í kjölfar þessara breytinga,“ segir Atli sem tók við sem framkvæmdastjóri fyrir rúmlega mánuði. „Ég kem til með að halda áfram að gera það sem er gott enn betra.“
asthildur@mbl.is