777 Garðræktarfélag Reykhverfinga hf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 401
Landshluti Norðurland eystra
Atvinnugrein Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar
Starfsemi Ræktun á aldingrænmeti og papriku
Framkvæmdastjóri Páll Ólafsson
Fyrri ár á listanum 2010–2022
Ávallt framúrskarandi Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 354.707
Skuldir 81.353
Eigið fé 273.354
Eiginfjárhlutfall 77,1%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 11
Endanlegir eigendur 9
Eignarhlutur í öðrum félögum 6
Endanleg eign í öðrum félögum 5

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Ræktun grænmetis og melóna, róta og hnýðis

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Ræktuðu 500 tonn af grænmeti í fyrra

1. Páll Ólafsson framkvæmdastjóri og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir eru ánægð …
1. Páll Ólafsson framkvæmdastjóri og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir eru ánægð með nýja gróðurhúsið. 2. Gróðurhús Garðræktarfélags Reykhverfinga. Bændur Páll Ólafsson framkvæmdastjóri og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir eru ánægð með nýja gróðurhúsið. Morgunblaðið/Atli Vigfússon

Garðræktarfélag Reykhverfinga á Hveravöllum í Suður-Þingeyjarsýslu á sér langa sögu. Félagið var stofnað árið 1904 og verður því 120 ára gamalt á næsta ári.

„Við erum næstelsta hlutafélagið á landinu, skilst mér,“ segir Páll Ólafsson framkvæmdastjóri. Garðræktarfélagið hefur frá upphafi verið rekið af fjölskyldu Páls og er að mestu leyti enn í eigu fjölskyldunnar. Það verður að teljast merkilegt að frá stofnun félagsins fyrir hartnær 120 árum hafa aðeins fjórir sinnt stöðu framkvæmdastjóra en allir tilheyra þeir einni og sömu fjölskyldunni.

„Þetta er almennt hlutafélag en fjölskyldan mín á í dag stóran meirihluta í þessu,“ segir Páll. „Við erum um það bil 18 sem stöndum vaktina hérna í dag.“

Þó nokkur vöxtur síðustu ár

Í háa herrans tíð hefur Garðræktarfélagið ræktað alls kyns matjurtir og grænmeti og sérhæfir sig ræktun á aldingrænmeti. Þegar talað er um aldingrænmeti er átt við grænmetistegundir á borð við tómata og agúrkur og fleira, en paprikuræktun er einnig stór hluti starfseminnar.

„Í dag er þetta allt ræktað inni í gróðurhúsum. Fyrsta gróðurhúsið sem var reist hérna hjá okkur var byggt árið 1932. Þá var strax byrjað að rækta og framleiða tómata,“ segir hann og bendir á að margt hafi breyst síðan þá. Þá sérstaklega hvað húsa- og tækjakost varðar.

„Fyrsta húsið var um 50 fermetrar að stærð. Núna erum við að vinna með 9.000 fermetra,“ segir Páll. „Þetta hefur verið að vaxa hægt og rólega hjá okkur,“ segir hann með hógværð. „Við erum frekar stór garðrækt á íslenskan mælikvarða en þetta þykir nú ekki mjög stórt á alþjóðavísu. Þetta er frekar lítið í samanburði við þann markað.“

Sól og vatn lykilatriði

Að sögn Páls eru framleiðsluferlar Garðræktarfélagsins oftast með svipuðu sniði sama á hvaða árstíma ræktun fer fram. Þá ræktaði félagið um það bil 500 tonn af grænmeti á síðasta ári.

„Fyrst er sáð, svo er beðið eftir því að plöntur komi undan fræjunum og þá eru þær ræktaðar í um það bil sex til átta vikur. Síðan er farið með plönturnar út í þau gróðurhús sem þær eiga að vera í. Í tómataræktuninni skiptum við um plöntur á sex vikna fresti þannig að ræktunin stoppar aldrei. Það er alltaf eitthvað í gangi inni í gróðurhúsunum,“ útskýrir Páll.

„Lýsingin gerir okkur kleift að halda úti heilsársræktun á tómötum og gúrkum til dæmis en það væri ekki hægt hér á landi yfir vetrartímann. Sólskin og birta eru lykilatriði í ræktun á matjurtum og yfir haust- og vetrartímann er ræktunin eingöngu keyrð á ljósum en á sumrin notum við sólina nema þegar það er skýjað.“

Þegar afrakstur Garðræktarfélagsins er tilbúinn er hann tíndur af plöntunum, pakkað í neytendaumbúðir og settur í almenna dreifingu hjá Sölufélagi garðyrkjumanna.

„Vatn er líka aðalforsendan í garðrækt. Við erum lánsöm með það hér á Íslandi að vera rík að vatni. Það er stórt atriði að vökva plönturnar vel í hverri framleiðslulotu og það getum við gert með góðu íslensku drykkjarvatni. Hitinn sem kemur inn í gróðurhúsin kemur líka úr heitu vatni og rafmagnið fyrir ljósin. Svo þetta snýst í rauninni allt um vatn.

Samheldinn hópur

Páll segir starfsandann hjá Garðræktinni vera góðan. Hann segir mikla samheldni einkenna starfshópinn enda vinni fólk mikið í návígi hvert við annað.

„Hér vinnur fólk mikið saman og allir þekkja sín hlutverk vel. Það eru auðvitað ákveðin sérhæfð verkefni sem þeir sem hafa þekkingu og færni í sinna en að mestu starfar allur hópurinn saman.“

Garðræktarfélag Reykhverfinga hefur á hverju ári frá upphafi Framúrskarandi fyrirtækja-vottunar Creditinfo verið þar á lista. Þegar Páll er spurður út í hvers vegna Garðræktarfélagið sé á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki ár eftir ár gefur hann lítið út á það.

„Ég veit það ekki. Þetta er í raun bara eitthvað sem við lendum í en ekki eitthvað sem við höfum sérstakt plan um að ætla að gera,“ segir hann. „Eina planið sem við erum með er að reyna að koma vel fram við starfsfólkið okkar og hafa bara svolítið gaman af þessu,“ segir Páll að lokum.

asthildur@mbl.is

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar