Kaupin styrkja heilsársáætlun Icelandair

Nýja Boeing 737 MAX er meðal annars með breytta vængjabyggingu …
Nýja Boeing 737 MAX er meðal annars með breytta vængjabyggingu en aðrar vélar. Icelandair

Icelandair ætlar áfram að nota Boeing 757 vélarnar og þær verða stór hluti af framtíðar leiðarkerfi félagsins. Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair á fundi þar sem kaup á 12 nýjum Boeing 737 MAX vélum var kynnt. Nýju vélarnar taka færri einstaklinga í sæti og eru með minni flugdrægni en núverandi vélar, en eldsneytissparnaður er áætlaður allt að 20% miðað við 757 vélarnar. Þetta gefur félaginu færi á að bæta við leiðarkerfi sitt, bæði með að fljúga á minni staði og halda úti bíðtækari heilsársstarfsemi.

Nýlega var tilkynnt að Icelandair væri í samræðum við bæði Airbus og Boeing um kaup á nýjum vélum, en Björgólfur segir að 737 MAX hafi verið betri kostur. „Það eru mjög margir þættir sem koma inn í svona útreikninga og einn þátturinn er verðið. En á heildina litið var þetta kostur sem kom betur út.“

757 vélarnar verða áfram í rekstri

Aðspurður hvort félagið stefni fljótlega að því að skoða endurnýjun á 757 vélunum líka segir Björgólfur að það sé ekki í sjónmáli strax. Hann segir vélina hafa verið uppfærða mikið undanfarin ár sem geri hana notendavænni. „Við erum ekki í þessum fjárfestingum afþví að við þurftum að endurnýja flugflotann, heldur horfum við á þetta sem sóknarfæri.“

Næsta sumar verður Icelandair með 18 vélar í rekstri og hefur þeim fjölgað um 2 á ári síðustu ár. Innleiðing á nýju vélunum mun að sögn Björgólfs standa yfir frá 2018 til 2021, en engar áætlanir eru um að fækka í hópi 757 vélanna. Það er því ljóst að miðað við núverandi plön ætlar Icelandair sér að halda áfram að stækka á næstunni og segir Björgólfur að þetta sé hluti af framtíðaruppbyggingu félagsins.

Ekki ætlunin að selja vélarnar áfram

Icelandair er eitt af þeim félögum sem hefur hvað lengstu viðskiptasöguna við Boeing. Þetta hefur komið þeim vel, meðal annars þegar félagið náði að komast framarlega í pöntunarröð fyrir Dreamliner vélarnar. Sú pöntun var reyndar áframseld nokkru seinna, en Björgólfur aftekur fyrir að slíkar hugmyndir séu upp núna. „Það er okkar plan að við munum nota allar þessar vélar. Það er engin ágiskunarstarfssemi með þessu.“ Hann tekur þó fram að mikil eftirspurn sé eftir nýju vélunum og meðal annars hafi Boeing gert 969 samninga um sölu á MAX vélunum og því sé um mjög seljanlega eign að ræða.

Í tilkynningu um kaupin kom fram að þau yrðu fjármögnuð með sjóðstreymi frá rekstri og hefðbundinni flugvélafjármögnun. Björgólfur segir að staða félagsins sé það sterk í dag að þeir telji þetta markmið vel nást og að ekki þurfi að breyta arðgreiðsluáætlun félagsins.

Hagstætt verð

Listaverð vélanna er um 180 milljarðar, en þrátt fyrir það segir Björgólfur að þetta sé ekki stærsta fjárfesting íslensks flugfélags. Meðal annars hafi Icelandair keypt fimmtán 737 vélar árið 2004, sem reyndar voru seinna allar seldar til Kína og fjórar Dreamliner vélar. Þekkt er í flugvélageiranum að mikill afsláttur er af listaverð flugvéla. Í sumar sagði mbl.is meðal annars frá því að veittur væri allt að 60% afsláttur til kaupenda. Það er því ljóst að verðið sem Icelandair mun greiða er töluvert lægra en uppgefið verð, en Björgólfur segir raunverulegt verð vera trúnaðarmál sem hann geti ekki tjáð sig um. Hann sagði félagið aftur á móti hafa fengið vélarnar á mjög hagstæðu verði.

Fullt var út úr dyrum á fundinum í dag.
Fullt var út úr dyrum á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK