Fyrirtaka var í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Kaupþingsmönnum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í dag og var frestur til að skila greinargerðum framlengdur til 4. mars á næsta ári. Ákveðið hefur verið að fresta aðalmeðferð til 20. apríl 2015.
Málið er eitt það umfangsmesta sem sérstakur saksóknari hefur sent frá sér en ákærðu er gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf sem bankinn gaf út. Í ákærunni segir sérstakur saksóknari að mörg brotanna hafi verið þaulskipulögð, staðið yfir í langan tíma og varðað gríðarlegar fjárhæðir
Stefnt hafði verið að því að aðalmeðferð myndi hefjast þann 19. janúar á næsta ári en við fyrirtökuna í dag sagði dómari að í september hefðu honum borist upplýsingar um að Hæstiréttur hefði ákveðið málflutning í Al-Thani málinu þann 26. og 27. janúar á næsta ári. Í því máli eru þrír menn ákærðir sem einnig eru ákærðir í þessu máli og eru verjendur tveggja þeirra einnig verjendur í þessu máli, þ.e. verjendur Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar. Benti verjandi Hreiðars Más einnig á að gott væri að fá niðurstöðu Hæstaréttar í Al-Thani málið áður en greinargerð yrði skilað.
Dómarinn, Arngrímur Ísberg, sagði þá að samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti hefði málið verið sett á dagskrá á þessum tíma að beiðni verjenda, þ.e. að beðið hefði verið um að málið yrði í fyrsta lagi sett á dagskrá þann 21. janúar, eða tveimur dögum eftir að aðalmeðferð markaðsmisnotkunarmálsins átti að hefjast. Ljóst hefði því verið að ekki gæti orðið að því að aðalmeðferð þessa máls myndi hefjast á á sama tíma.
Verjandi Hreiðars Más, Hörður Felix Harðarson, sagðist hins vegar ekki hafa lagt fram slíka beiðni og kvaðst Kristín Edwald verjandi Magnúsar ekki heldur hafa gert það.
Björn Þorvaldsson, saksóknarfulltrúi, benti á að mögulega þyrfti að taka frá lengri tíma í réttarhöldin þar sem í ljós hefði komið í Landsbankamálinu að skýrslutökur í umfangsmiklum málum sem þessu gætu dregist á langinn auk þess sem málflutningur myndi að minnsta kosti taka heila viku. Var því þá velt upp hvort aðalmeðferð myndi frestast til haustsins.
Sakborningar í málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fv. forstjóri bankans, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, fv. forstöðumaður eigin viðskipta í bankanum, Magnús Guðmundsson, fv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Bjarki H. Diego, fv. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. verðbréfasalar eigin viðskipta í Kaupþingi, og Björk Þórarinsdóttir sem sat í lánanefnd kaupþings og starfaði á fyrirtækjasviði