Kostnaður á kostnað ofan

Himinhár innheimtukostnaður blasir við þeim sem taka smálán og greiða …
Himinhár innheimtukostnaður blasir við þeim sem taka smálán og greiða ekki á réttum tíma. Þrjú smálánafyrirtæki setja sérstakan innheimtukostnað ofan á flýtigjald, fyrir utan innheimtukostnað sem leggst ofan á sjálf lánin. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Flýtigjald sem leggst ofan á smálán hjá Múla, 1909 og Hraðpeningum fer í sérstaka innheimtu. Lántaki sem fór tvo mánuði fram yfir eindaga með 20 þúsund króna lán sat uppi með 36 þúsund króna skuld, en ekki bara það heldur fór 5.500 króna flýtigjald upp í tæp 10 þúsund. Þannig breyttist 25.500 skuld í rúm 46 þúsund á tveimur mánuðum. Þrátt fyrir meint þak sem fyrirtækin segjast hafa sett á lántöku hvers og eins náði lántakinn, sem þá var langt leiddur í eiturlyfjafíkn, að taka 13 smálán á 5 dögum.

Smálánafyrirtækin sem starfa undir hatti fyrirtækisins Neytendalán ehf.; þ.e. Hraðpeningar, Múla og 1909, leggja háan innheimtukostnað á lán sem ekki eru greidd á réttum tíma og rukka að auki sérstakan innheimtukostnað á svokallað flýtigjald, sem bætist ofan á kostnað við innheimtu lánsins. Þetta þýðir að ef lán er tekið að upphæð 20.000 krónur og 5.500 króna flýtigjald er greitt stofnast tvær kröfur á lántaka. Séu kröfurnar ekki greiddar fara þær í innheimtu og á þær leggst kostnaður sem virðist fara langt út fyrir allt sem eðlilegt getur talist. 

Svimandi hár innheimtukostnaður

Lánayfirlit einstaklings sem náði að taka 13 smálán á fimm dögum í sumar og blaðamaður hefur undir höndum sýnir glöggt hversu svimandi hár innheimtukostnaður smálánafyrirtækjanna er ef fólk af einhverjum ástæðum stendur ekki við að greiða á réttum tíma.

Hvert lán sem maðurinn tók nam 20.000 krónum og heildarskuldin sem stofnað var til á þessum fimm dögum nam því alls 260.000 krónum. Lántaki, sem þá var langt leiddur og illa haldinn af eiturlyfjafíkn, nýtti sér þann möguleika að bæta við svokölluðu flýtigjaldi að andvirði 5.500 krónur til að fá peningana fyrr.

Samtals nam því skuld mannsins við fimm smálánafyrirtæki 331.500 krónum með flýtigjaldinu. Auk þriggja fyrrnefndu fyrirtækjanna fékk viðkomandi lán hjá Kredia ehf. og Smálánum ehf., en þau fyrirtæki eru undir sama hatti.

Að tveimur mánuðum liðnum hafði skuldin hækkað í 566.008 krónur. Kostnaður vegna innheimtu lána sem voru upphaflega samanlagt að fjárhæð 260.000 kr. var því orðinn alls 234.508 krónur, eða nærri því jafnhá upphæð og upphaflega hafði verið fengin að láni.

Gæti þurft að breyta lögum

Í reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtu má sjá að vegna kröfu með 20.000 króna höfuðstól má að hámarki leggja á 8.350 krónur við frum- og milliinnheimtu. Eftir það tekur löginnheimta við, en þegar lán eru komin í slíka innheimtu gildir reglugerðin ekki lengur en stuðst er við leiðbeinandi reglur sem settar eru fyrir lögmenn um upphæðir. 

Á undanförnum árum hefur sú umræða hvort hægt sé að koma böndum á okurvexti smálánafyrirtækja og háan innheimtukostnað margoft komið upp hér á landi og þingmenn allra flokka hafa sýnt vilja til að bæta lagarammann utan um fyrirtækin. Lítið hefur hins vegar gerst í þessum málum og enn starfa þau tiltölulega óáreitt. Eignarhald þeirra er óljóst, forsvarsmenn þeirra eru lítt sýnilegir og fyrirtækin eru ekki sérlega iðin við það til dæmis að skila ársreikningum.

Málefni smálánafyrirtækja voru enn á dagskrá efnahags- og viðskiptanefndar á fundi 3. desember sl. Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali að ríkur vilji væri til þess að gera það sem þarf til að koma böndum á kostnaðinn sem fyrirtækin leggja á lántakendur. „Það þarf að skoða það rækilega hvort það stenst lög og reglur að innheimta margfaldan innheimtukostnað á við upphaflega kröfu. Ef þarf að breyta lögum til þess að koma í veg fyrir þessa innheimtu þá bara gerum við það. Við í nefndinni höfum allavega mikinn áhuga á að gera allt sem hægt er til að bæta stöðu neytenda gagnvart þessum fyrirtækjum.“

Tvær kröfur fyrir hvert lán

Í dæmi lántakans sem vísað er til hér voru tekin 13 lán með flýtigjaldi hjá fimm mismunandi fyrirtækjum. Þrjú fyrirtækjanna, Hraðpeningar, Múla og 1909, veittu manninum alls átta smálán. Með því stofnuðust ekki bara átta, heldur 16 kröfur í heimabanka lántaka, þar sem sérstakar kröfur eru gefnar út vegna flýtigjaldsins. Með því að stofna sérstakar kröfur vegna flýtigjaldsins geta fyrirtækin smurt innheimtukostnaði sérstaklega ofan á þá kröfu, fyrir utan innheimtukostnað sem leggst ofan á höfuðstól lánsins.

Annað mál fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála

Ekkert fyrirtækjanna tekur kostnað vegna flýtigjalds með í útreikning sem það birtir lántaka um heildarkostnað við lántökuna. Neytendastofa tók í júní síðastliðnum (áður en lántakinn í dæmum í þessari grein tók sín lán) ákvörðun um að fyrirtækin fimm ættu að taka kostnað við flýtigjald með þegar þau reikna út heildarkostnað við lántökuna, eða svokallaða ÁHK, þ.e. árlega hlutfallstölu kostnaðar. Á dögunum staðfesti áfrýjunarnefnd ákvörðunina gagnvart Kredia og Smálánum, en þau hafa gefið það út að þau muni ekki fara eftir fyrirmælunum. Gera má ráð fyrir að á næstu vikum komi einnig niðurstaða vegna ákvörðunar gagnvart Hraðpeningum, 1909 og Múla.

Smálánafyrirtækin hafa sagt að þau muni ekki hlíta þessum fyrirmælum og halda áfram að rukka flýtigjald án þess að reikna kostnað við það inn í ÁHK. Neytendastofa hefur heimildir til að beita fyrirtækin dagsektum hlíti þau ekki niðurstöðu áfrýjunarnefndar en það hefur enn ekki verið gert.

Þau hafa þó öll fengið sekt upp á 250 þúsund krónur hvert. Miðað við upphæðirnar sem hlaðast utan á lánin þegar þau fara í innheimtu má gera ráð fyrir að þau hafi öll verið frekar snögg að safna fyrir þeirri skuld.

Smálánafyrirtækin eru lítt sýnileg, eignarhald þeirra er óljóst og nú …
Smálánafyrirtækin eru lítt sýnileg, eignarhald þeirra er óljóst og nú hefur Neytendastofa sektað þau vegna þess að ekki er allt tekið inn í þegar lántökukostnaður er birtur. Samt starfa þau áfram og ekki hafa enn verið lagðar á dagsektir fyrir að fara ekki að fyrirmælum áfrýjunarnefndar neytendamála. Ernir Eyjólfsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK