Smálánafyrirtækin Kredia og Smálán eru orðin að rafbókabúðum. Á heimasíðum þeirra kemur nú fram að fyrirtækin hafi verið stofnuð til þess að veita almenningi aðgang að stóru rafbókasafni og veita lán á góðum kjörum. Fyrirtækin eru í eigu sama aðila, Mario Megela, fjárfestis frá Slóvakíu.
„Kredia vill bjóða upp á hraða og örugga þjónustu. Bók og lán Kredia gerir þér kleift að kaupa rafbækur úr safni okkar auk þess sem þér býðst að taka lán. Hvort tveggja, rafbókin og lánið, er afgreitt innan 30 mínútna,“ segir á heimasíðu Kredia, en samskonar texti er að finna hjá Smálánum.
Virðisaukaskattsflokkun félaganna hjá fyrirtækjaskrá hefur þá einnig verið breytt og falla þau nú í flokkinn „smásala póstverslana eða um Netið.“
Bæði er hægt að taka lán fyrir bókakaupunum og staðgreiða þau með debetkorti. Ef viðskiptavinur tekur hins vegar lán fyrir bókinni er verður lánið aðgreint í sitt hvora greiðsluna.
Samkvæmt upplýsingum frá Kredia hefur verið boðið upp á þjónustuna frá 1. apríl sl. og verður í framtíðinni ekki hægt að taka lán án þess að kaupa bók.
Enn er þó hægt að taka lán án meðfylgjandi bókar í gegnum SMS en búið er að taka fyrir það á heimasíðu fyrirtækjanna og í þjónustuverinu.
Ekki er hægt að sjá bókaúrvalið án þess að vera skráður inn á heimasvæði viðskiptavina á vefsíðum fyrirtækjanna en samkvæmt upplýsingum frá Kredia eru titlarnir nokkuð margir.
Starfsmaður í þjónustuveri Kredia sagðist ekki vita betur en að stefna fyrirtækisins væri að lánafyrirtækin yrðu hér eftir jafnframt bókabúðir.