„Fyrir mitt leyti snýst málsóknin fyrst og fremst um að borin sé virðing fyrir grundvallaratriðum í viðskiptum milli fólks og staðfestingu á að treysta megi á íslenskan félagarétt,“ segir Sverrir Einar Eiríksson í yfirlýsingu vegna málsóknar hans á hendur Hraðpeningum ehf., Skorra Rafni Rafnssyni og Jumdon Micro Finance Ltd þar sem hann sakar Skorra um að sölsa undir sig allt hlutafé í Hraðpeningum með ólögmætum hætti.
Sverrir segir að til þess að undirstrika tilgang sinn með málsókninni hafi hann ákveðið að láta Barnaspítala Hringsins og ABC barnahjálp njóta alls fjárhagslegs ávinnings af niðurstöðu dómsmálsins. Sú ákvörðun byggi ennfremur á því að markaðssetning Hraðpeninga hafi ekki verið honum að skapi enda hafi hún verið úr takti við þær ákvarðanir sem teknar hafi verið við stofnun félagsins. Rifjar hann upp að Hraðpeningar hafi verið stofnað í desember 2009 af honum, Skorra og Gísla Rúnari Rafnssyni og hafi þeir átt félagið að jöfnu.
„Allt hlutafé var greitt við stofnun eins og kemur fram í stofngögnum. Skömmu eftir stofnun Hraðpeninga hélt ég til útlanda að sinna sameiginlegum verkefnum okkar þriggja. Ég var því hvorki í aðstöðu til að fylgjast nægjanlega með gangi mála né að koma að markaðssetningu Hraðpeninga og stefnu félagsins almennt og lagði allt mitt traust á viðskiptafélaga mína. Skorri Rafn misnotaði sér með ósvífnum hætti þessar aðstæður og það traust og trúnað sem honum var sýndur, með því að sölsa undir sig allt hlutafé Hraðpeninga ehf. eftir að ljóst var að félagið skilaði verulegum hagnaði allt frá upphafi,“ segir í yfirlýsingunni.
Sverrir segir Skorra hafa viðurkennt að hafa breytt hluthafaskrá Hraðpeninga þannig að hlutfjáreign Sverris hafi verið færð yfir á hans nafn. „Þetta gerði hann án nokkurrar heimildar og var mér ekki tilkynnt það með nokkrum hætti. Með stefnu minni krefst ég þess að Skorri Rafn Rafnsson bæti það tjón sem hann olli mér með saknæmu og ólögmætu athæfi sínu og mun allur fjárhagslegur ávinningur, sem fyrr segir, renna til Barnaspítala Hringsins og ABC barnahjálpar.“