Martin Zeil, fyrrverandi þingmaður þýska þingsins og efnahagsráðherra Bæjaralands, er sagður flæktur í alþjóðlegt bankahneyksli í umfjöllun bæverska ríkissjónvarpsins, BR, í dag.
Vefur Ríkisútvarpsins greinir frá þessu.
Segir þar að Zeil hafi verið yfirmaður lögfræðideildar þýska bankans Hauck & Aufhäuser árið 2003, þegar tæpur helmingshlutur íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum var seldur. Fjallað sé þá ítarlega um málið í kvöld í vikulegum fréttaskýringaþætti bæverska ríkissjónvarpsins, Kontrovers.
Fram kemur að bankinn hafi ekki viljað svara spurningum fréttastofu RÚV og óskum um viðtal vegna skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem kom út í síðustu viku.
Bankinn hefur þó pantað þýðingu á skýrslunni, að því er fram kemur í yfirlýsingu Hauck & Aufhäuser vegna fyrirspurna BR.