Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að sig hafi grunað lengi að félagið Dekhill Advisors, sem fékk hluta hagnaðarins af Hauck & Aufhäuser-fléttunni á móti Ólafi Ólafssyni, væri ennþá til.
„Mig er búið að gruna þetta nokkuð lengi,“ segir Vilhjálmur í samtali við blaðamann sem truflaði Vilhjálm þar sem hann var að spila brids. „Grunur minn er alltaf sá sami; að maður sem á fæðingardag 8.8. '54 eigi reikning númer 668854. Það hefur ekkert breyst.“
„Hvaða kynþokkafulli maður á afmæli 8. ágúst og er fæddur 1954?“ spurði Vilhjálmur á Facebook-síðu sinni 31. mars skömmu eftir skýrslu rannsóknarnefndar um sölu Búnaðarbankans.
Dekhill Advisors fékk hluta hagnaðarins af Hauck & Aufhäuser-fléttunni á móti Ólafi Ólafssyni. Árið 2006 voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem var skráð á Tortóla.
Vilhjálmur hefur enga trú á því að Ólafur Ólafsson komi fram með eitthvað nýtt þegar hann kemur á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á morgun. „Það getur ekki verið. Fyrsta skjalið sem ég opnaði var frá Steingrími Ara Arasyni til Davíðs Oddssonar og það hefur löngum legið fyrir. Eftir að ég sá að það var allt og sumt þá datt mér ekki í hug að hitt væri merkilegra og hélt áfram að spila.“