Félagið Dekhill Advisors, sem fékk hluta hagnaðarins af Hauck & Aufhäuser-fléttunni á móti Ólafi Ólafssyni, virðist enn vera til. Ekki er útilokað að stjórnvöld geti nálgast upplýsingar um eigendur félagsins en þær ættu að vera á skrá í Sviss. RÚV greinir frá.
Í skýrslu rannsóknarnefndar um sölu Búnaðarbanka frá því í lok mars kemur fram að ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.
Árið 2006 voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem var skráð á Tortóla.
Nefndin sannreyndi einnig að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi aldrei í reynd verið fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi.
Greint er frá því í frétt RÚV að Dekhill hafi verið virkt eftir hrun og hafi átt í viðskiptum við Julius Bäer-bankann í Sviss. Þrátt fyrir að bankaleynd ríki í Sviss geta yfirvöld annarra ríkja óskað aðstoðar þarlendra yfirvalda til að nálgast bankaupplýsingar.