Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að fundur nefndarinnar með Ólafi Ólafssyni hafi verið heldur rýr í roðinu. Ólafur hafi sótt fast eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar.
„Ég vil í það minnsta orða það þannig að það hafi verið afskaplega rýrt,“ svarar Jón Steindór þegar hann er spurður að því hvort Ólafur hafi ekki komið fram með neinar nýjar upplýsingar í dag.
Áður hafði komið fram að forsenda þess að Ólafur kæmi á fund nefndarinnar væri sú að hann kæmi fram með einhverjar nýjar upplýsingar. „Hann sótti fast að því að fá að koma á fundinn og á endanum þótti okkur rétt að verða við því,“ segir Jón Steindór og bætir við því að Ólafi hafi verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að styðja mál sitt með gögnum.
„Þau voru afskaplega rýr í roðinu og vörpuðu að mínu mati engu nýju ljósi á málið.“
Nefndin á eftir að fara yfir það sem Ólafur sagði á fundinum og vega og meta hvort ástæða sé til að íhuga eitthvað þar nánar. „Í fljótu bragði sýnist mér það ekki vera mikið.“