Eldborgarsalurinn í Hörpu var fullsetinn í dag þegar Creditinfo kynnti listann yfir framúrskarandi fyrirtæki ársins 2017 og veitti sérstök verðlaun til N1 og Hampiðjunnar. N1 fékk verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagslega ábyrgð og Hampiðjan var valin framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins.
Undanfarin ár hefur Creditinfo tekið saman lista yfir fyrirtæki sem mæta ákveðnum skilyrðum um ábyrgan og arðbæran rekstur. Fyrirtækin sem mæta þessum skilyrðum komast á lista yfir „Framúrskarandi fyrirtæki“.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, tók fyrst til máls og lýsti ánægju sinni yfir því að fyrirtækjum á listanum hefði fjölgað í gegnum árin. Sú þróun endurspeglaði uppgang í efnahagslífinu. Hún sagði að jafnframt þyrfti að horfa til fleiri þátta sem ekki væri hægt að mæla jafnauðveldlega og þess vegna hefði Creditinfo ákveðið að veita sérstök verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð og nýsköpun.
Við val dómnefndar á fyrirtækinu sem þótti skara fram úr í samfélagslegri ábyrgð var litið til þess hvernig stefnu fyrirtækið hefði mótað sér í málum á borð við umhverfismál og félagsmál. Þá var horft til þess hversu vel því hefði gengið að ná markmiðunum og hvort að það væri fyrirmynd annarra fyrirtækja.
Eins og áður sagði hlaut olíufélagið N1 verðlaun og var nefnt að N1 hefði náð góðum árangri í umhverfismálum, jafnrétt og ábyrgri stjórnun. Eggert Þór Kristófersson forstjóri sagði sérstaklega ánægjulegt fyrir hefðbundið olíufélag að hljóta verðlaun af þessu tagi.
Dómnefndin sem valdi það fyrirtæki sem skaraði fram úr í nýsköpun horfði til þátta eins og fjölda einkaleyfa og hvort að nýsköpun væri hluti af daglegu starfi fyrirtækisins. Hampiðjan varð hlutskörpust og tók þróunarstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni við verðlaununum.