Hefur skilað hagnaði frá fyrsta starfsári

Egill Örn Jóhannsson er framkvæmdastjóri Forlagsins.
Egill Örn Jóhannsson er framkvæmdastjóri Forlagsins. mbl.is/Styrmir Kári

Í efsta sæti lista Creditinfo í ár, í flokki meðalstórra fyrirtækja, er eignarhaldsfélagið Randver, sem hélt utan um eignarhlut Jóhanns Páls Valdimarssonar í Forlaginu. „Nafnið er engin tilviljun enda félagið nefnt eftir stjórnarformanni eignarhaldsfélagsins og Forlagsins, kettinum Randver sem féll frá á síðasta ári og var yndislegt dýr,“ útskýrir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins. Randver heldur ekki lengur utan um hlut Jóhanns, en Forlagið keypti á síðasta ári 42,5% hlut Jóhanns í fyrirtækinu og eru einu eigendur bókaútgáfunnar nú Egill og Bókmenntafélagið Mál og menning.

Bókaútgáfan Forlagið hefur líka ratað ofarlega á lista Creditinfo allt frá því fyrst var tekið upp á því að velja framúrskarandi fyrirtæki. Að komast á listann er afrek út af fyrir sig, en þykir enn merkilegra í ljósi þess að Forlagið starfar í grein sem hefur átt erfitt uppdráttar. „Rekstur Forlagsins, og þar áður JPV útgáfu, hefur gengið vel og skilað hagnaði allt frá fyrsta starfsári,“ segir Egill, en reksturinn varð til árið 2001 með stofnun JPV-útgáfu og starfar enn á sömu kennitölu. Árið 2007 sameinaðist JPV útgáfuhluta Eddu og stækkaði fyrirtækið umtalsvert við það.

Blómleg bókabúð

Í dag gefur Forlagið út fjölda bóka af ýmsum toga og er útgáfustarfsemin langsamlega fyrirferðarmest í rekstrinum, en fyrir nokkrum árum var ákveðið að hefja að auki rekstur bókabúðar á Fiskislóð þar sem bókalager fyrirtækisins er geymdur. „Við ákváðum að sérkenni búðarinnar yrði gott úrval, enda hefur úrvalið í íslenskum bókabúðum dregist töluvert saman á undanförnum árum. Við vildum bjóða upp á bókabúð þar sem væri hægt að finna allar þær bækur sem fáanlegar eru hverju sinni og þannig er hægt að finna þar yfir 7.000 titla frá öllum útgefendum,“ útskýrir Egill.

Eins og gefur að skilja geta prýðileg samlegðaráhrif verið fólgin í því fyrir stóra bókaútgáfu að reka eigin bókaverslun, en Egill segir jafnframt greinilegt að vöntun hafi verið á verslun af þessu tagi þar sem áherslan er á mikið úrval og vandaða þjónustu við viðskiptavinina. „Á síðasta ári jókst sala í bókabúðinni okkar um tugi prósenta. Er það einkar ánægjulegt í ljósi þess hve mikið bókabransinn hefur átt í vök að verjast.“

Smíða hljóðbókaforrit

Forlagið hefur líka tekið tæknina í sína þjónustu og opnaði fyrir ári nýja og fullkomna netverslun þar sem kaupa má alla þá titla sem eru til sölu í bókabúðinni á Fiskislóð. „Á síðasta ári margfölduðum við líka framboð rafbóka og létu viðbrögð kaupenda ekki á sér standa því um 500% aukning varð í sölu rafbóka hjá Forlaginu í fyrra. Mætti því áætla að ástæðan fyrir því að rafbókamarkaðurinn á Íslandi hafi ekki enn náð því flugi sem hann hefur gert í flestum nágrannalöndunum hafi verið að framboðið var ekki verið nægjanlegt.“

Næst á dagskrá er að efla hljóðbókaútgáfuna og síðar á árinu mun Forlagið gefa út snjallforrit fyrir farsíma og tölvur þar sem hægt verður að streyma hljóðbókum yfir netið. „Við teljum að útgáfa hljóðbóka á geisladiskum sé ekki lengur skynsamleg, einfaldlega vegna þess að geisladiskaspilarar finnast varla á heimilum, og ljóst að með snjallsímavæðingunni mun streymi hljóðbóka verða framtíðin.“

Hljóðbókaútgáfan verður stórt stökk fyrir Forlagið og ekki ódýr tilraun. „Það er rétt að útgáfa hljóðbóka getur verið töluvert kostnaðarsöm enda þarf að borga fyrir lesturinn og greiða tæknimanni. Þá verður að auki að streyma efninu, sem kostar sitt, og halda utan um tæknilegu hliðina. Er kostnaðurinn af hljóðbókaútgáfu því töluvert meiri en af að gefa út rafbók,“ segir Egill.

Ekki háð jólabókaflóðinu

Spurður hvað geti skýrt góðan rekstur bókaútgáfuhlutans segir Egill að þar spili fjölmargir þættir inn í. „Við höfum haft frábæra höfunda og líka frábært starfsfólk og alltaf sýnt mikið aðhald í rekstri. Í sögulegu tilliti hefur ekki gengið vel hjá útgefendum, og það er alltaf mikilvægt að missa ekki sjónar á rekstrarhluta útgáfunnar samhliða því að reyna að gefa út bækur sem eiga erindi við almenning og geta selst.“

Það ætti líka að hafa hjálpað Forlaginu að bókaútgáfunni er dreift yfir allt árið og fyrirtækið ekki jafn háð jólabókavertíðinni og margir keppinautarnir. „Flestir útgefendur eiga líklega allt sitt undir því hvernig salan gengur á þriggja vikna kafla, og hætt við að illa fari ef hlutirnir ganga ekki upp í aðdraganda jóla. Eitt helsta keppikefli okkar eftir stofnun var að gefa út bækur á öðrum árstímum og breikka þannig tekjugrunninn. Það hefur gengið vel og er nú svo komið að aðeins minnihluti tekna Forlagsins verður til í jólabókaflóðinu, eða um þriðjungur. Hjá mörgum öðrum útgáfum hygg ég að hlutföllunum sé jafnvel öfugt farið og að 80% eða allt upp í 90% af tekjunum verði til í desember.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK