Hugbúnaðarfyrirtækið dk hugbúnaður féll út af lista Creditinfo eftir að ráðist var í mikla uppstokkun á rekstrinum árin 2012 og 2013. „Á þeim tíma tókum við þá ákvörðun að loka starfsstöðvum okkar erlendis og einbeita okkur að íslenska markaðnum. Þegar mest var vorum við með starfsemi í Uppsölum, Malmö og þrjár á Englandi en upp úr hruninu varð úr að hætta allri starfsemi á Norðurlöndunum og erum við núna aðeins með eitt útibú utan Íslands sem þjónustar þau bresku fyrirtæki sem nota hugbúnaðinn frá dk,“ segir Dagbjartur Pálsson, annar tveggja framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Uppstokkunin skilaði tilætluðum árangri. Reksturinn hefur dafnað vel og komst dk hugbúnaður fljótt aftur á listann yfir framúrskarandi fyrirtæki. „Allt frá árinu 2001, þegar við byrjuðum að selja hugbúnaðinn okkar, hefur vöxturinn verið um það bil 15% að jafnaði ár hvert og sveiflast frá 11% til 20% milli ára. Fyrirtækið hélt áfram að vaxa með sama hraða á meðan við vorum í útrás en kostnaðurinn við útrásina var einfaldlega of mikill og ljóst að breytinga var þörf. Eftir að við endurskipulögðum reksturinn hefur það sýnt sig að vöxturinn hefur haldið áfram með sama hraða,“ segir Dagbjartur en á síðasta ári velti dk hugbúnaður um það bil 1,34 milljörðum króna. Árið á undan var veltan 1,14 milljarðar.
Rúmlega sex þúsund fyrirtæki hér á landi nota hugbúnað frá dk, þar af um fjögur þúsund sem nýta sér skýjalausnir dk, en vöruframboðið inniheldur m.a. bókhaldskerfi, framleiðslukerfi, verslunarkerfi, launakerfi, verkkerfi og hótelkerfi. Dagbjartur segir harða samkeppni á markaðnum og þarf dk hugbúnaður m.a. að etja kappi við Navision og Tok auk þess sem reglulega skjóta upp kollinum metnaðarfullir sprotar. „Við þurfum að fylgjast vel með og vinna stöðugt að því að auka og bæta vöruframboðið. Það höfum við m.a. gert með hugbúnaði fyrir snjalltæki og vefinn, svo að viðskiptavinir dk hugbúnaðar hafa meira val hvar og hvernig þeir nota forritin okkar,“ útskýrir Dagbjartur. „Á þessu ári verða liðin 20 ár frá stofnun dk hugbúnaðar og við vinnum nú hörðum höndum að veglegri afmælisútgáfu okkar lykilvara sem verður gefin út síðar á árinu og við bindum miklar vonir við þær nýjungar og breytingar sem því fylgja.“
Stefnt er að því að fyrirtækið vaxi áfram með sama hraða og segir Dagbjartur illmögulegt að vaxa hraðar öðruvísi en með samrunum og yfirtökum. Horfurnar eru góðar og þó svo að ekki verði miklar breytingar á markaðshlutdeild dk hugbúnaðar þá fer kakan stækkandi. „Sú þensla sem hefur verið í atvinnulífinu undanfarin ár, ekki síst í ferðamannaiðnaðinum, hefur orðið til þess að fjölga þeim fyrirtækjum sem þurfa á alls kyns hugbúnaðarlausnum að halda og verið okkur mjög til hagsbóta.“