Margvísleg tækifæri í innviðafjárfestingum

Sigurgeir Tryggvason, framkvæmdastjóri Summu.
Sigurgeir Tryggvason, framkvæmdastjóri Summu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn af nýliðunum á lista Creditinfo í ár er Summa rekstrarfélag hf. sem er fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til reksturs sjóða og fjárfestingarráðgjafar. Núverandi starfsmenn tóku við rekstrinum árið 2013 en félagið byggir á grunni eldra fyrirtækis sem hét Summa ráðgjöf og þeir dr. Hrafnkell Kárason og dr. Haraldur Óskar Haraldsson ráku saman. Hrafnkell og Haraldur starfa enn hjá félaginu, en Sigurgeir Tryggvason er framkvæmdastjóri og situr fyrir svörum:

„Viðskiptavinir okkar eru einkum fagfjárfestar og þá sér í lagi lífeyrissjóðir og höfum við í dag nálægt 30 milljörðum króna í stýringu,“ segir Sigurgeir en starfsmenn Summu eru fimm talsins og eiga allir að baki mikla reynslu úr fjármálageiranum.

Meðal þess sem veitir Summu sérstöðu er áhersla á fjárfestingar í langtímaverkefnum m.a. á sviði orkuvinnslu og orkunotkunar. Þá rekur Summa Innviðasjóð sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða og einblínir á hagræna innviði (e. economic infrastructure) á Íslandi. Sigurgeir segir ljóst að þörf sé fyrir töluverða uppbyggingu innviða hér á landi en víða um heim hafi sams konar sjóðir komið að fjármögnun hagrænna innviða. „Sjóðurinn getur tekið þátt í verkefnum ásamt ríki og sveitarfélögum og minnkað þannig áhættu og skuldsetningu hins opinbera. Opinerum aðilum gæfist þá aukið rými til fjárfestinga í samfélagslegum innviðum, s.s. í heilbrigðiskerfinu,“ segir hann. „Ég tel að það sé skynsamlegt að horfa til uppbyggingar hagrænna innviða með þessum hætti en vitaskuld er um viðkvæmt mál að ræða þar sem stíga þarf varlega til jarðar og ná góðri sátt um það tekjumódel sem notað verður.“

Hvað snertir vegaframkvæmdir segir Sigurgeir að í nágrannalöndunum megi finna fjölmörg dæmi um aðkomu fjárfesta og sjóða og hægt að útfæra þetta samstarf ríkis og einkaaðila á marga vegu. „Því fer fjarri að þeir sem leggja til fjármagn njóti einhvers konar einokunarrentu, eins og margir óttast, heldur er samið um eðlilega áhættuskiptingu og sanngjarna ávöxtun sem allir geta verið sáttir við.“

Sigurgeir segir að það sé ekki aðeins á sviði samgöngumála sem hið opinbera og fjárfestar geti starfað saman heldur séu önnur tækifæri fyrir hendi s.s. í orkuinnviðum og fjarskiptainnviðum. „Þessi leið á ekki alltaf við en það er mjög skynsamlegt að stjórnmálamenn horfi til þessarar lausnar í ákveðnum tilvikum. Fyrir lífeyrissjóði sem vilja fjárfesta til lengri tíma væri um ákjósanlegan fjárfestingarkost að ræða og góða leið til bættrar áhættudreifingar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK