Snögg og mikil umskipti á síðasta ári

Gunnþór Ingvarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, reiknast til að fyrirtækið hafi verið frá upphafi á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. „Okkur þykir vænt um að vera á listanum og hlýtur það að vera markmið hvers félags að vera þar. En árangur félagsins er fyrst og fremst að þakka framúrskarandi starfsfólki,“ segir hann.

Viðurkenningarnar sem veittar eru í ár eru vegna rekstrarársins 2016, sem Gunnþór segir hafa verið gott ár á marga vegu. „Ytri skilyrði voru hagfelld og fengum við gott verð fyrir afurðir okkar framan af ári. Sem dæmi veiddum við um helmingi minna af loðnu árið 2016 en 2017 en verðmætið var mun meira.“

Árið 2016 var samt ekki áfallalaust og lokaðist Rússlandsmarkaður fyrir íslenskum sjávarafurðum í ágústmánuði. „Í kjölfarið hrundi verð á uppsjávartegundum lóðbeint niður og hefur haldist lágt alla tíð síðan. Því samhliða hefur krónan styrkst mikið. Því er ekki að neita að við höfum verið að sjá samdrátt hjá okkur síðustu árin, og þannig eru tekjur ársins 2017 30% lægri en 2015. Var 2017 að öllu leyti mun þyngra ár en 2016.“

Laga þarf formúluna að baki veiðigjöldunum

„Auk umbreytinga á mörkuðum og í gengi erum við að sjá stórauknar álögur í formi veiðigjalda og kolefnisgjalds,“ segir Gunnþór. „Eins og nefnt hefur verið í umræðunni eru veiðigjöldin afkomutengd og miðast við tveggja ára gamlan afkomugrunn. Gjöldin fyrir kvótaárið 2017/2018 miðast við árið 2015 sem var mjög gott rekstrarár. Umskiptin hafa verið mjög snögg og mikil enda leggst allt á eitt; krónan er sterk, markaðir hafa gefið eftir í verði, innlendir kostnaðarliðir á borð við laun hafa hækkað og veiðigjöldin og olían eru að hækka.“

Því fer samt fjarri að allur máttur sé farinn úr Síldarvinnslunni og dótturfélögum fyrirtækisins. Bergur Huginn í Vestmannaeyjum hefur t.d. pantað tvö ný skip sem væntanleg eru til landsins fyrri hluta næsta árs og Síldarvinnslan upplýsti síðasta sumar að stefnt væri að því að skipta út Barða NK og Gullveri NS fyrir nýja og fullkomna ísfisktogara. Er þegar búið að losa út hluta af ísfisktogurunum en skipin voru orðin gömul og endurnýjun tímabær.

Fjárfesting í nýjum skipum mun, að sögn Gunnþórs, leiða til þess að gæði aflans aukist og aðbúnaður áhafnarinnar verði mun betri. „Síðustu ár hafa verið greininni mjög hagfelld, sjávarútvegurinn hefur nýtt þau ár í að greiða niður skuldir og fjárfesta. En það er öllum ljóst að það var orðin mikil uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun skipastólsins. Við vonum auðvitað að við séum að sigla inn í tíma þar sem við getum endurnýjað og þróað skip og annan búnað með eðlilegri og jafnari hætti en áður.“

Rússíbanareið dregur mátt úr greininni

Gunnþór segir sjávarútveginn lifandi grein þar sem hver dagur feli í sér nýjar áskoranir. „Eins og áður hefur komið fram erum við að endurnýja skipastólinn hjá okkur. Við erum að vinna í áhugaverðum þróunarverkefnum, sem miða að því að auka verðmæti afurða okkar. Þar trúi ég að leynist tækifæri til vaxtar í framtíðinni, t.d. að gera mun meiri verðmæti úr þeim próteinum sem nú eru nýtt til mjöl- og lýsisvinnslu. Við þurfum stöðugt að fylgjast með þeirri tækniþróun sem á sér stað og freista þess að fylgja henni,“ segir hann.

„Neysluvenjur þjóða breytast og þurfum við að laga framleiðslu okkar að því, auk þess sem efnhagur markaðslanda okkar getur verið sveiflukenndur sem kemur niður í neyslumynstri. Stærsta áskorun íslensks sjávarútvegs og íslenskra stjórnvalda er samt að ná samkomulagi um framtíð fiskveiðistjórnunar á Íslandi og að setja niður með hvað hætti menn ætla að innheimta auðlindagjald af greininni. Þessi stöðuga rússíbanareið með þessa hluti dregur mátt úr greininni og veikir okkur í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við erum í. Mín skoðun er skýr; við erum með öflugasta sjávarútveg í heimi, en það er mikilvægt að gjaldheimtan verði með þeim hætti að hún hindri ekki framþróun greinarinnar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK