Árið 1979 tók framtakssamur maður á Sauðárkróki, að nafni Magnús E. Svavarsson, sig til og stofnaði flutningafyrirtæki. Reksturinn nefndi hann Vöruflutninga Magnúsar. Fyrst um sinn var flotinn aðeins einn vöruflutningabíl af Scania-gerð og flutningarnir fóru aðallega fram milli heimabæjarins og Akureyrar. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þeim tæpu fjörutíu árum sem síðan hafa liðið og í dag er Magnús framkvæmdastjóri þriðja stærsta fyrirtækis landsins í vöruflutningum, á eftir Eimskip og Samskip. Fyrirtækið heitir Vörumiðlun, er enn með höfuðstöðvar á Sauðárkróki og er framúrskarandi fyrirtæki 2017; ekki í fyrsta og vafalaust ekki í síðasta sinn.
„Það er búið að vera nóg að gera og þegar allt kemur til alls er það aðalmálið,“ segir Magnús léttur í bragði þegar hann er spurður út í gott gengi fyrirtækisins á síðasta ári. „Við erum í þjónustu og þegar mikið er um að vera í þjóðfélaginu þá er mikið að gera hjá okkur.“ Hann bætir því við að í Skagafirði sé mikil framleiðsla, ekki síst á matvöru ásamt ýmsu fleiru. „Þannig að þetta er búið að vera mjög fínt ár.“
Þegar Magnús lætur hugann reika til baka, aftur til upphafsins, tekur hann undir að bransinn hafi tekið stakkaskiptum á þeim tíma sem liðinn er í rekstri fyrirtækisins.
„Það er allt búið að breytast, bara allt. Nema það að það þarf að koma vörum á milli staða, það er það sem þetta snýst um. Hratt og örugglega.“
Sem fyrr segir hóf Magnús rekstur sem einyrki í eigin fyrirtæki en fljótlega fór hann að langa að stækka reksturinn og gera eitthvað meira, eins og hann segir frá.
Mjór er mikils vísir, segir líka máltækið.
„Það hefur loðað við mig alla tíð að þurfa að gera alltaf eitthvað aðeins stærra og meira,“ bætir hann við og kímir.
Strax árið 1986 stækkaði reksturinn nokkuð þegar keyptur var rekstur vöruflutninga Kristjáns og Jóhannesar, en þá bættust við fast ferðir milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Síðan hefur Vörumiðlun bætt við sig jafnt og þétt og nú síðast keypti fyrirtækið Fitjar vörumiðlun í Keflavík. Þar með bætist Reykjanesið við þegar viðamikið dreifingarnet Vörumiðlunar.
Sem fyrr sagði er Vörumiðlun í dag þriðja stærsta vöruflutningafélag landsins og flotinn eftir því myndarlegur. „Við erum með um fjörutíu stóra flutningabíla, plús vagna og annað. Allt í allt erum við með á milli áttatíu og níutíu tæki.“
Rekstur Vörumiðlunar hófst á Sauðárkróki og þar er hann ennþá, þó að fyrirtækið sé margfalt umsvifameira í dag. Skyldi það ekkert koma að sök að vera ekki með höfuðstöðvarnar í höfuðstaðnum?
Magnús er fljótur að neita því.
„Nei, það kemur alls ekkert að sök. Það breytir í rauninni engu því við erum að flytja vörur frá Reykjavík út á staði víða um land, í Skagafjörðinn, í Húnavatnssýsluna, Strandirnar, Dalasýslu, Höfn í Hornafirði, Hellu, Hvolsvöll og Vík í Mýrdal, og svo núna Reykjanesið, Svo við getum alveg stjórnað þessu héðan. Við erum líka með gott starfsfólk á hverjum stað. Við höfum alltaf reynt að hafa heimafólk á hverjum stað til að sinna málunum, það finnst mér mjög mikilvægt.“
Þetta kemur út af fyrir sig ekkert á óvart enda er Magnús sjálfur heimakær og vill hvergi vera nema á Sauðárkróki. „Já, ég neita því ekki,“ svarar hann til og hlær.
Eins og Magnús nefndi að framan þá hefur allt breyst í vöruflutningabransanum nema kjarni málsins sjálfur – að það þarf að flytja vörur, eftir sem áður, hratt og örugglega. Hefur þá tækniþróunin, og hinar reglulega tæknibyltingar undanfarin ár, ekki breytt neinu fyrir starfsemi Vörumiðlunar?
„Við þurfum náttúrlega stöðugt að vera að uppfæra okkur,“ segir Magnús. „Hér áður fyrr var ekkert mikið verið að flytja tilbúna vöru milli landshluta, eins og er svo mikið um núna, eins og til dæmis ýmiss konar matvöru. Nú er hún fullunnin og tilbúin og þar af leiðandi þarf kælibíla til að flytja vöruna. Þetta er ferskvara sem þolir ekki annað en að vera í ströngu eftirliti í kælibílum.
Auk þess erum við komnir með nákvæma skönnun fyrir alla flutninga til að hámarka rekjanleikann. Þannig er fljótgert að finna hluti ef eitthvað fer úrskeiðis. Einnig erum við með sérstakt eftirlitskerfi í öllum bílunum okkar og sjáum þar af leiðandi nákvæmlega hvar þeir eru á landinu, hversu hratt þeir fara og hversu oft þeir stoppa, og annað slíkt. Þannig get ég séð í tölvunni hjá mér hvar hver einasti bíll er staddur. Að því leytinu til eltir nútímatæknin okkur líka uppi, þó að kjarni málsins sé eftir sem áður flutningarnir,“ segir Magnús.
Eins og Magnús nefndi er flutningur á tilbúinni og ferskri matvöru ört vaxandi þáttur í starfsemi Vörumiðlunar, og kemur þar ýmislegt til. „Það er mjög mikið um flutninga á fullunninni matvöru, einnig grænmeti og fleira slíku sem flutt er á milli staða,“ útskýrir Magnús. „Þá nefni ég að áður fyrr má heita að það hafi verið kjötvinnsla í hverju plássi, en núna eru þetta bara nokkur stór sláturhús sem sjá um þetta og búa til matvöru fyrir hvert pláss um sig. Þá þarf að koma vörunni á áfangastað. Þá erum við að flytja óhemjumagn af mjólkurvöru sem er framleidd hér í Skagafirðinum og það eru stór sláturhús á Hvammstanga, Blönduósi og svo hér í Skagafirði.“
Er þá ótalin öflug fiskvinnsla á Króknum, enda er Skagafjörðurinn margrómað matarbúr.
Það er því laukrétt sem Magnús sagði – Vörumiðlun er því fullkomlega í sveit sett með staðsetningu sinni á Sauðárkróki. Það er ekki að undra að það sé hugur í honum fyrir árinu fram undan.
„Já, ég get sagt þér að það er fullt af tækifærum fram undan í flutningunum. Alveg fullt af tækifærum. Við höldum ótrauðir áfram á sömu braut, grípum tækifærin þegar þau gefast og reynum stöðugt að gera betur. Ég er því bara bjartsýnn á nýja árið.“
jonagnar@mbl.is