„Erum ekki í beinni samkeppni við Costco“

Egill Fannar Reynisson, framkvæmdastjóri Dorma og Ger.
Egill Fannar Reynisson, framkvæmdastjóri Dorma og Ger. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sumum þótti það veruleg bjartsýni hjá stofnendum Dorma að opna nýja verslun með rúm og húsgögn í miðri kreppu. Reksturinn hefur þó gengið vel og fyrirtækið stækkað hratt. „Við opnuðum fyrstu verslun Dorma í Holtagörðum árið 2009, því næst verslanir á Akureyri og Ísafirði og í hittifyrra bættist fjórða Dorma-verslunin við á Smáratorgi,“ segir Egill Fannar Reynisson, framkvæmdastjóri Dorma og móðurfyrirtækisins Gers innflutnings.

Egill stofnaði Dorma með bróður sínum Gauta en fyrir eiga þeir Húsgagnahöllina og Betra bak. „Okkur þótti vöntun á nýrri verslun með þeim áherslum sem Dorma hefur, en aðalsmerki búðarinnar er að bjóða upp á vandaðar vörur á góðu verði og eru rúm, sófar og hægindastólar í fyrirrúmi til viðbótar við mjúkvörur fyrir svefnherbergið.“

Byggist á reynslu og þjónustu

Það er ekki sjálfgefið að rekstur húsgagnaverslana gangi vel, hvað þá að þeim takist að komast á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Egill skrifar árangurinn m.a. á reynda starfsmenn sem sinna viðskiptavinunum af fagmennsku og hlusta eftir óskum þeirra. „Við höfum líka verið mjög dugleg að skoða hvað er í boði hjá erlendum framleiðendum hverju sinni og eigum í góðum samskiptum við birgja okkar.“

Salan hjá Dorma hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun og segir Egill að bæði 2016 og 2017 hafi verið prýðileg ár í rekstrinum. Hann bendir á að sala á húsgögnum haldist oft í hendur við það hversu mikil hreyfing er á húsnæðismarkaði. „Það fylgir því oft þegar fólk flytur sig um set að ráðist er í kaup á nýjum húsgögnum fyrir heimilið og höfum við notið góðs af blómlegum fasteignamarkaði undanfarin ár.“

Einnig hefur styrking krónunnar hjálpað Dorma og segir Egill að fyrirtækið gæti þess að leyfa viðskiptavinum að njóta gengisþróunarinnar í lægra verði. Annað kemur ekki til greina enda virðast neytendur vanda sig mjög við kaupin, gera verðsamanburð og fjárfesta ekki í húsgögnum nema að vandlega athuguðu máli. „Við sjáum greinileg merki þess að neytendur eru orðnir mun skynsamari og taka betur ígrundaðar ákvarðanir um húsgagnakaup en þeir gerðu fyrir hrun. Birtist þetta m.a. í því að mun algengara er orðið að fólk staðgreiði vöruna frekar en að það fjármagni kaupin með raðgreiðslusamningum.“

Samkeppnin er hörð og t.d. fann Dorma fyrir því þegar bandaríski risinn Costco lenti á Íslandi með miklum látum. „Það kom þó fljótt í ljós að þrátt fyrir breitt vöruúrval erum við ekki í beinni samkeppni við Costco. Salan hjá okkur dalaði lítillega í kjölfarið á opnun stórverslunarinnar í Kauptúni síðasta vor en hafði jafnað sig strax um haustið.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK