Árið 2017 reyndist nokkuð krefjandi fyrir Icelandair eftir fádæma meðbyr árið á undan. Félagið hefur nú snúið vörn í sókn, lagað til í skipulagi sínu og bætt við leiðakerfið. Það er hugur í fólki, eins og glöggt má heyra á forstjóra Icelandair Group, Björgólfi Jóhannssyni.
„Kraftur og samheldni starfsfólks félagsins,“ svarar hann að bragði þegar hann er spurður út í hvað það hafi verið sem standi upp úr starfseminni á síðasta ári þegar hann lítur um öxl. „Samkeppnin á mörkuðum okkar er mikil og umhverfið var mjög krefjandi á seinasta ári. Við slíkar aðstæður reynir á starfsfólk og stjórnendur sem aldrei fyrr og ég er mjög stoltur af því hvernig okkar fólk tókst á við áskoranir ársins.“
Nokkuð var fjallað um það í fjölmiðlum þegar umfangsmikil uppstokkun átti sér stað í skipulagi fyrirtækisins nú í upphafi árs. Með hvaða hætti sér Björgólfur að téð uppstokkun mæti aðstæðum á samkeppnismarkaði og geri félagið í kjölfarið samkeppnisfærara?
„Það skipulag sem við vorum með var í grunninn frá árinu 2009. Síðan hefur félagið stækkað mjög mikið; áfangastöðum hefur fjölgað, umsvif og velta hefur stóraukist, flugflotinn stækkað og starfsfólki fjölgað,“ útskýrir hann. „Önnur umsvif hafa einnig aukist mjög mikið. Markmiðið með skipulagsbreytingunum nú er að skerpa fókusinn á alþjóðaflugstarfsemi sem er kjarninn í starfseminni. Í grófum dráttum má segja að starfsemi félagsins verði skipt í tvennt; annars vegar alþjóðaflugstarfsemi og hins vegar fjárfestingar. Flugstarfsemi félagsins vegur þyngst í rekstri og afkomu samstæðunnar og það er mikilvægt að uppbygging félagsins endurspegli þá staðreynd. Þá starfsemi erum við að samþætta með þessum skipulagsbreytingum, reyna að ná fram enn skýrari heildarhugsun í alþjóðaflugreksturinn.“
Icelandair hefur verið að bæta hressilega við leiðakerfið til Bandaríkjanna, svo eftir hefur verið tekið. Hvaða möguleika hafa nýjustu 5 áfangastaðirnir í för með sér fyrir félagið?
„Þessir áfangastaðir stækka leiðakerfið enn frekar og fjölga tengimöguleikum. Segja má að við höldum áfram að skerpa á þeirri grundvallarsýn að nýta staðsetningu landsins,“ bendir Björgólfur á. „Hún gefur okkur einstakt færi á tengiflugi vegna þess að við náum með smærri flugvélum, þ.e. ekki breiðþotum, inn á tugi stórra borga í Bandaríkjunum og Evrópu og getum vaxið með öðrum hætti en stóru félögin í kringum okkur. Þannig getum við sótt dýpra inn á einstaka markaði, fleiri borgir, og búið til fleiri tengimöguleika.“
En Icelandair horfir ekki bara til Bandaríkjanna þegar kemur að nýjum áfangastöðum og upp úr dúrnum kemur að það eru varla takmörk fyrir því hve fjarlæga áfangastaði Icelandair er reiðubúið að skoða.
Leiðakerfið vestur um haf er orðið mjög öflugt, að sögn Björgólfs, en hann bætir við að tækifærin liggi ekki aðeins í Norður-Ameríku þó það hafi lengi verið afar mikilvægur markaður hjá Icelandair og verði það enn.
„Eins og fram hefur komið erum við að skoða möguleika í Asíu og einnig að fara dýpra inn í Evrópu. Asía er spennandi, líkt og Afríka, því þar er mikill vöxtur. Það er að skapast eftirspurn eftir flugi til og frá þessum heimsálfum og við viljum skoða möguleika á því að sækja sneið af þeirri köku, annað hvort sjálf eða í samstarfi við aðra aðila.“
Það eru ýmsar nýjungar í farvatninu hvað flugflota félagsins varðar á þessu ári og þeim næstu. Í þeim viðbótum felast ýmsir möguleikar fyrir félagið, eins og Björgólfur bendir á. „Við höfum samið við Boeing um kaup á sextán Boeing 737 MAX vélum og fáum þær allar afhentar innan fjögurra ára. Fyrsta vélin, sem við fáum í hendurnar innan fárra vikna, er í smíðum og við fáum þrjár vélar afhentar á fyrri hluta þessa árs. Það verða mikil tímamót að fá þessar nýju vélar í flotann hjá okkur. Þær eru sparneytnar og hagkvæmar í rekstri og eins og ég hef áður lýst munu þær opna fyrir okkur nýja markaði og spila vel saman með 757 og 767 vélunum sem eru í flotanum hjá okkur í dag.“
Ísland nálgast það sífellt að vera fyllilega heilsársáfangastaður erlendra ferðamanna, en er landið í stakk búið til að taka við þessum fjölda? Hvað vill Björgólfur helst sjá gerast hérlendis til að mæta þessum aukna straumi fólks hingað?
„Fjölgunin hefur auðvitað verið mjög mikil og þó að nú sé að hægjast á henni í prósentum talið þá er enn gert ráð fyrir því að ferðamönnum fjölgi um á þriðja hundrað þúsund á þessu ári. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskrar ferðaþjónustu núna er að nýta betur okkar stóra land. Ef við skoðum tölur Ferðamálastofu yfir hlutfall ferðamanna sem heimsóttu hvern landshluta yfir vetrartímann þá sjáum við að á meðan allur þorri ferðamanna staldrar við á höfuðborgarsvæðinu fara aðeins 8% á Vestfirði og 17% norður í land. Mín skoðun er sú að til þess að breyta þessu verðum við að fjárfesta meira á þessum stöðum. Og þá er ég ekki að tala um ómarkvissa uppbyggingu á hótelum eða öðrum mannvirkjum heldur ekki síður í innviðum og þjónustu og ekki síst fólki. Lykilatriði er að það liggi fyrir stefna og að henni sé svo framfylgt. Markviss uppbygging og fjárfesting er það sem skilar árangri.“
Eins og Björgólfur nefndi framar er samkeppnin á markaðnum hörð og sókn lággjaldaflugfélaga verður sífellt harðari. Með hvaða hætti aðgreinir Icelandair sig helst á markaði – hver er sérstaða þess sem flugfélags að mati Björgólfs?
„Við erum enn að bjóða upp á mikla þjónustu eins og áður en einnig nýja vöru, nýjan fargjaldaflokk, Economy Light. Við höfum sagt að okkar félag staðsetji sig á milli þeirra félaga sem skilgreind eru sem fullþjónustufélög og þeirra sem eru hrein lágfargjaldaflugfélög,“ bætir Björgólfur við. „En það má heldur ekki gleyma því þegar horft er yfir markaðinn að félögin eru að færast nær hvert öðru úr báðum áttum. Á meðan gamalgróin félög bjóða upp á ódýrari fargjaldaflokka eru margir af samkeppnisaðilum okkar einnig að bjóða upp á dýrari flokka með meiri þjónustu en áður. Það er ekki í anda lágfargjaldamódelsins þar sem aðeins er boðið upp á eina tegund fargjalds.“
Leiðakerfi Icelandair er orðið býsna umfangsmikið og mörg borganöfn sem forstjórinn þarf að hafa á hraðberginu. Það er því ekki úr vegi að slá á létta strengi og inna Björgólf eftir því hvort hann eigi sér ekki eftirlætis áfangastað? Hann reynist fljótur til svars.
„Uppáhaldsborgin mín af áfangastöðum Icelandair er Boston. Mér finnst hún skemmtilega evrópsk og hafa upp á mikið að bjóða fyrir styttri og lengri heimsóknir. Næsta ferð mín með Icelandair er hins vegar til London þar sem ég millilendi á leið minni áfram.“
jonagnar@mbl.is