Margt af sama starfsfólkinu eftir 25 ár

Chandrika Gunnarsson.
Chandrika Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Chandrika Gunnarsson er eigandi og stofnandi Austur Indíafélagsins. Hún segir fyrirtækið í stöðugum vexti og lykillinn að góðum árangri sé að þjóna Íslendingum vel og að breyta ekki því sem gengur vel í gegnum árin.

Hvað stendur upp úr á síðasta rekstrarári hjá fyrirtækinu og hverju þakkið þið helst árangurinn?

„Það sem stendur upp úr að mínu mati er tryggð viðskiptavina okkar. Við höfum vaxið jafnt og þétt á milli ára. Okkar tryggu viðskiptavinir hafa aukið komur sínar og meirihluti gesta okkar er heimamenn. Við fáum einnig talsvert af ferðamönnum, en við erum hér þökk sé heimamönnum og byggjum reksturinn á því.

Það eru engar töfralausnir í þessum geira. Það tekur langan tíma að byggja upp tryggan hóp viðskiptavina og lykillinn að því er að viðhalda stöðugleika. Við minnum okkur reglulega á mikilvægi þess að breyta ekki því sem gengur vel og reynum stöðugt að bæta okkur. Austur Indíafjelagið er nú á 25. starfsári sínu. Við höfum rekið fyrirtækið undir sömu kennitölu öll árin, á sama staðnum og að stórum hluta með sama starfsliði. Það hefur reynst okkur vel. Viðskiptavinir okkar eru ákaflega þakklátir fyrir að sama hvað breytist í samfélaginu, þá vita þeir að hverju þeir ganga hjá okkur. Þó er mikilvægt að staðna ekki og vera ávallt opin fyrir nýjungum sem gera upplifun gesta enn betri.“

Markaðshlutdeild vex jafnt og þétt

Hver hefur þróunin verið á markaðshlutdeild ykkar og arðsemi síðustu misserin?

„Vöxtur ferðaiðnaðarins hefur breytt umhverfi veitingahúsa mjög mikið á síðustu árum. Við höfum notið góðs af því eins og aðrir, en eins og fyrr greindi er meirihluti viðskiptavina okkar heimamenn. Við höfum litlu breytt til að höfða sérstaklega til ferðamanna og alls ekki á kostnað þess sem við höfum byggt upp fyrir landsmenn sem þekkja okkur.

Auk Austur Indíafjelagsins rekum við fjóra veitingastaði undir merki Hraðlestarinnar og hafa allir fimm veitingastaðir vaxið í veltu. Hvað markaðshlutdeild varðar stöndum við vel þegar kemur að indverskum mat. Við bjóðum upp á ekta indversk krydd, menningu og mat sem minnir á hjarta matargerðar í Indlandi. Matreiðslumeistarar okkar eru þeir bestu á sínu sviði á Indlandi og svo mætti lengi áfram telja.“

Að höfða til ungu kynslóðarinnar

Hvað er á döfinni á þessu ári?

„Það er nokkur óvissa um hvernig framtíð veitingageirans mun þróast á þessu ári. Sem dæmi þá er ómögulegt að sjá fyrir hvað muni gerast varðandi kjör starfsmanna á árinu. Í dag er áskorunin helst sú að vinnuafl er dýrt í landinu og hráefnisverð hátt. Við munum þó halda okkar striki og reyna að gera það sem við erum góð í; að viðhalda stöðugleika á öllum sviðum rekstursins og bjóða gestum okkar góðan mat, fagmannlega þjónustu og einstaka upplifun á stöðunum okkar.

Það er mikil velta í veitingahúsaiðnaðinum. Ný fyrirtæki eru að verða til, sem er ánægjulegt, en því miður eru einnig fyrirtæki að hætta. Við verðum varkár þegar kemur að því að vaxa, en erum með einhverjar hugmyndir um slíkt sem við nálgumst af varfærni á nýju ári. Við munum leggja okkur fram við að halda áfram að njóta tryggðar okkar viðskiptavina, en setjum okkur það markmið að ná til ungu kynslóðarinnar sem mun erfa landið. Vonandi velur hún okkur eins og fyrri kynslóðir hafa gert í gegnum áratugina,“ segir hún að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK