„Ég gantast stundum með það við starfsfólkið mitt að líklega væri ég að græða meira á pylsusölu en ég geri með Norðurflugi,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs. Það er líklega óhætt að segja að viðskiptavinir Norðurflugs séu yfirleitt í sjöunda himni, ef ekki í skýjunum, því fyrirtækið er vinsælasta þyrluflugþjónusta landsins og í hópi framúrskarandi fyrirtækja.
„Það eru nú kannski fyrst og fremst gömul og góð gildi sem við höfum í hávegum í rekstri fyrirtækisins, sem hafa fleytt okkur í þessa stöðu,“ segir Birgir Ómar um stöðu Norðurflugs á listanum og gott gengi undanfarin ár. „Við höfum verið mjög varkár í því sem við höfum verið að gera, höfum passað vel upp á allar skuldsetningar og hugað vel að fjárhagslegri heilsu fyrirtækisins í alla staði. Þetta er eiginlega bara uppskera af því að vera varkár og fylgjast vel með því hvað er að gerast í rekstrinum. Eiginlega finnst manni ekkert spes í þessu, bara hafa í heiðri gömul og góð gildi.“
Birgir Ómar bætir því við að til að hlutirnir gangi jafnvel upp og raun ber vitni hjá Norðurflugi á árinu sem leið, þurfi ákveðnar aðstæður að vera til staðar. „Ef við bætist svo ákveðin yfirlega yfir rekstrinum og varkárni í allri nálgun er hægt að nýta hagfellt umhverfi með góðum árangri. Undanfarin ár, þar sem við Íslendingar höfum notið þess að vera með vöxt í komu erlendra ferðamanna upp á 30-40% milli ára, hefur umhverfið verið með hagstæðasta móti.“
Norðurflug var stofnað árið 2006 og Birgir man því tímana tvenna, beggja megin við bankahrunið í október 2008. Við tóku þá erfiðir tímar en lægra gengi íslensku krónunnar, eldgos, Inspired by Iceland átaksverkefnið og gróska í kvikmyndagerð séu meðal helstu þátta sem hafi komið Íslandi á þann stað sem það er gagnvart erlendum ferðamönnum.
Birgir bætir því við að það séu ákveðnar ytri aðstæður, eins og krónan, sem hafi skipt máli, „en líka ytri aðstæður sem fáir tala um en ég hef alltaf talið mjög mikilvægar og þar á ég við að Ísland er talið öruggt land. Það eru hryðjuverk og óróleiki víða um heim og það fer enginn í frí í slík lönd. Þá eru ótalin áhrifin af verkefnunum sem True North er að vinna við, svo dæmi sé tekið. Hvað heldurðu til dæmis að kvikmyndin The Secret Life of Walter Mitty hafi skilað okkur miklu? Eða Prometheus eftir Ridley Scott? Ég get sagt þér það að það var haft eftir honum þegar hann var hér við tökur á þessari mynd við Dettifoss, að skotið þar sem er flogið upp eftir Dettifossi, veran stendur við fossinn og svo birtist geimskipið – þetta væri að líkindum flottasta sena sem hann hefði nokkru sinni tekið. Svona orð frá Ridley Scott hafa svo mikið að segja. Þetta er ótrúleg landkynning.“
Norðurflug er eins og framar greindi eina þyrluflugsþjónustan á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Það eitt og sér skapar fyrirtækinu nokkra sérstöðu en Birgir bætir við að í tilfelli Norðurflugs sé rekstrarumhverfið auk þess allt annað. „Þá á ég við að Norðurflug er að vinna í meginatriðum samkvæmt sömu lögum og reglugerðum og Icelandair. Það er af því að allt sem er flugtengt, það er allt saman undir EASA [European Aviation Safety Agency] sem setur allar reglur um starfsemi flugrekenda. Við erum þar af leiðandi að vinna í miklu dýrara umhverfi en ella, sem ég held að fæstir átti sig á. Ég gantast stundum með það við starfsfólkið mitt að líklega væri ég að græða meira á pylsusölu en ég geri með Norðurflugi,“ bætir Birgir við og hlær. „Nú er ég auðvitað að krydda þetta aðeins, en engu að síður er það svo að allir stjórnendur í Norðurflugi, svokallaðir „post-holders“ samkvæmt EASA-reglugerðinni, verða að vera vottaðir. Það er umhverfið sem við erum að starfa í. Einnig nefni ég að í svona fyrirtæki verðurðu að hafa mjög sterkt teymi af sérfræðingum. Og það tekur tíma að byggja slíkt upp, það get ég sagt þér.“
Birgir bendir á að þyrlurekstur í þeirri mynd sem er hjá Norðurflugi hafi einfaldlega ekki verið til hér á landi fyrir árið 2009.
„Árið 2009, í kjölfarið á hruninu, þá umbyltum við okkar viðskiptamódeli. Það sem við gerðum þá var að byrja að bjóða upp á pakkaferðir. Þar höfum við alltaf verið algerlega leiðandi á markaðnum. Auk þess höfum við alltaf lagt gríðarlega áherslu á markaðsstarf enda er markaðsdeildin okkar mun stærri en hjá sambærilegum fyrirtækjum hér á landi. Hér áður fyrr buðu fyrirtækin bara upp á ferðir þar sem þyrlan var leigð út á tímagjaldi, en við erum með fullmótaða vöru í boði, rétt eins og veitingastaður þar sem pantað er eftir matseðli. Við erum þannig með ódýra rétti, millidýra rétti og dýra rétti,“ útskýrir Birgir. „Við skiptum framboðinu okkar á heimasíðunni upp í stuttar ferðir, millilangar ferðir og loks langar ferðir.“
Þar sem ferðirnar eru mislangar hefur Norðurflug mismunandi þyrlur klárar í ferðirnar, fjórar talsins alls. Þyrlurnar eru um þessar mundir af tegundunum Bell 206 Jet Ranger, sem er minnst; þá eru tvær AS 350 B2 Ecureuil Astar og loks ein af gerðinni AS365N Dauphin. Þó ólíkar séu um eitt og annað eiga vélarnar sitthvað sameiginlegt sömuleiðis.
„Öll farþegasæti snúa fram í þyrlunum okkar og auk þess eru gluggar það stórir að þú nýtur 180° útsýnis í þeim öllum,“ bendir Birgir á. „Þær eru allar með svokallaðan „open cabin“ eða opið farþegarými og ekkert sem er að þvælast fyrir útsýninu.“
Útsýnisflug með þyrlum er ekki ýkja gamall bransi hér á landi og Birgir tekur fram að til að gera fólki á jörðu niðri sem allra minnst ónæði leggur fyrirtækið sig fram við að fljúga ekki ofan í gönguleiðum, svo dæmi sé tekið, né heldur yfir sumarhúsahverfum.
„Við höfum verið að leggja á það áherslu að gæta vel að umhverfinu á allan máta, og það er liður í umhverfisstefnu okkar.“
Spurður um vinsælar ferðir sem í boði eru hjá Norðurflugi segir Birgir að það sé ákaflega vinsælt hjá útlendingum að komast í einhvers konar snjó, og þar af leiðandi séu jöklar vinsælir.
„Við erum til að mynda með ferð upp á Þórisjökul sem heitir Fire and Ice, og hún er mjög vinsæl. Að upplifa náttúrulegar aðstæður þar sem alger kyrrð ríkir, í ósnortnu náttúrulegu umhverfi, það er það sem heillar einna mest og flestir virðast sækja í. Geothermal-ferðin okkar er flug þar sem áfangastaðurinn er háhitasvæðið við Hengilinn. Þar erum við að lenda í nágrenni við hverinn og þar sér fólk gufuna stíga upp úr iðrum jarðar, heyrir vatnið krauma og er að öðru leyti í algerri þögn, fjarri umferðarnið og mannfjöldaþvarginu í verslunarmiðstöðvunum. Erlendir gestir upplifa svo sterka náttúrutengingu á svona stöðum því þetta þekkist ekki í heimalöndum þeirra. Þar bjóðast varla lengur staðir þar sem þú getur farið og aftengt og hlustað á náttúruna. Við sem hérna búum eigum til að gleyma þessu en með því að horfa á landið með augum erlendra ferðamanna, og upplifa náttúruna með þeirra skynjunarfærum, þá gerum við okkur kleift að koma best til móts við óskir þeirra um ógleymanlega upplifun.“