Jarðböðin við Mývatn hafa ekki farið varhluta af stóraukinni aðsókn ferðamanna til Íslands og þó að sumrin séu ennþá mest sótti tími ársins er aðsóknin öll að „styrkjast í öxlunum“ eins og framkvæmdastjórinn Guðmundur Þór Birgisson segir frá. Nánar að öxlunum hér á eftir.
„Það hefur verið mikill straumur hjá okkur af erlendum ferðamönnum, og það hefur því munað um að vera með framúrskarandi starfsfólk sem hefur staðið sig frábærlega. Það er þetta tvennt sem gerði síðasta ár svo gott sem raun ber vitni,“ segir Guðmundur um árið 2017.
Hann tekur undir að nú sé svo komið að hægt sé að tala um heilsársferðamennsku þegar aðsókn í Jarðböðin er annars vegar.
„Fyrst og fremst eru það axlirnar sem hafa verið að styrkjast, og svo veturinn.“
Hér á hann vitaskuld við brekkurnar tvær á aðsóknarlínunni yfir árið, þ.e. vorið og haustið sitt hvorum megin við sumarhápunktinn; sumarið ber eftir sem áður höfuð yfir herðarnar en aukin aðsókn yfir vor, haust og vetur er heldur að minnka brattann í brekkunum tveimur á aðsóknarlínunni.
Aðsóknaraukningin milli ára var hressileg að sögn Guðmundar, eða rúmlega 8%. Markmiðið um heilsársferðaþjónustu færist því stöðugt nær.
„Það eru mjög margir á ferðinni á veturna og stór hluti þeirra sem leggja leið sína norður í land koma til okkar. Jarðböðin við Mývatn eru einn af þeim ferðamannastöðum sem eru opnir allt árið, hvern einasta dag nema nýársdag,“ útskýrir Guðmundur og bætir við að gestir í desember hafið verið um 4.000 sem teljist alveg ágætt á þeim bænum.
Guðmundur skilur sjálfur mætavel þá sem koma í jarðböðin yfir veturna. Þá klæðast þau oftar en ekki sínum glæsilegasta búningi, þegar snjór liggur jafnvel yfir og í froststillunum virðist gufan úr böðunum stíga alla leið til himna, alls óáreitt af gjólu eða kalda.
„Á þessum tíma er heimsókn í Jarðböðin töfrum líkust og persónulega finnst mér veturinn langskemmtilegasti tíminn í böðunum,“ segir hann. „Í 15-20 stiga frosti er engu líkt að fara í vatnið sem er 39-40 °C heitt. Ef veður er alveg stillt þá eiginlega gerist það ekki betra.“
Guðmundur segir það einkar gefandi fyrir sig og starfsfólkið að sjá ómengaða ánægju skína úr andlitum gesta. Sömu ánægju hafi hann svo lesið út úr þeim þjónustukönnunum sem Jarðböðin hafi framkvæmt síðasta sumar og einnig nú í vetur.
„Slíkar kannanir framkvæmum við til að halda okkur upplýstum um hvað það er sem gestir okkar vilja fá út úr heimsókn til okkar. Það er gaman að segja frá því að við réðumst í að stækka hjá okkur veitingasalinn í haust ásamt því að stækka anddyrið og móttökuna alla. Það sem gladdi okkur sérstaklega var að í einni þjónustukönnuninni spurðum við gesti okkar hvort framkvæmdirnar hefðu truflað viðkomandi og hann/hún orðið mikið var/vör við þær. Hjá allmörgum var svarið einfaldlega: „Hvaða framkvæmdir?“ Fólk labbaði bara í gegnum framkvæmdasvæðið en var svo frá sér numið yfir fegurð Jarðbaðanna að það tók ekkert eftir því að verið var að vinna. Það sá bara fegurðina.“
Jarðböðin við Mývatn hafa notið mikillar aukningar í aðsókn síðustu fimm ár og tölurnar tala sínu máli þegar þær eru skoðaðar. „Árið 2012 koma hingað 92.000 gestir yfir allt árið, og árið 2016 er heildargestafjöldinn 202.000 manns.“
Þetta er talsvert brött aðsóknaraukning en Guðmundur segir aðstöðuna, umgjörðina og innviðina engu að síður hafa haldið – nokkuð sem víða um land er í deiglunni hérlendis í ljósi aukins ferðamannafjölda – og það þakkar hann fyrst og fremst sínu framúrskarandi starfsfólki. Starfsmannaandinn er með miklum ágætum á vinnustaðnum að sögn Guðmundar og Jarðböðunum helst einkar vel á starfsfólki. Fyrir bragðið séu Jarðböðin við Mývatn með ákaflega reynt og gott starfsfólk.
„Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel, og þess má geta að síðastliðið haust bættum við ekki bara veitingasalinn heldur líka aðstöðuna fyrir starfsmenn. Við vorum að betrumbæta kaffiaðstöðuna til muna og þar sem við höfum þurft að fjölga fastráðnu starfsfólki var ekki um annað að ræða en að byggja tvö raðhús hér í Reykjahlíð, því hér var ekkert húsnæði að fá og ekkert verið að byggja. Þarna erum við með alls sjö íbúðir. Þetta var okkur nauðsynlegt til að getað ráðið til okkar fólk, og því réðst fyrirtækið í þessa framkvæmd.“
Þegar heildarfjöldi gesta er skoðaður kemur kunnuglegt mynstur í ljós; af þeim sem koma í Jarðböðin eru 90% erlendir ferðamenn, 10% eru Íslendingar. Túristarnir eru semsé ekki að setja það fyrir sig að bregða sér norður í land, og Guðmundur bætir því við að langflestir séu þeir að ferðast á eigin vegum, þ.e. á bílaleigubíl, en ekki sem hluti af skipulagðri hópferð.
Þegar Guðmundur er inntur eftir því hvað það er sem ljái Jarðböðunum við Mývatn sérstöðu sína meðal annarra baðstaða hér á landi – eða bara meðal annarra áfangastaða fyrir ferðamenn yfirleitt – þarf hann ekki að hugsa sig lengi um.
„Sérstaða okkar er vatnið, þetta sérstaka jarðhitavatn sem við erum að nýta. Fólk sækir í það bæði fyrir þennan sérstaka bláa lit sem er á vatninu og svo ekki síður hefur það oft heyrt af því, og finnur svo líka sjálft, að það er sérkennilega mjúkt viðkomu. Auk þess er ekki bara gott að vera í vatninu heldur er vatnið líka gott fyrir húðina. Allir þessir eiginleikar vatnsins okkar orsakast af því að það inniheldur kísil, og svo er blái liturinn þörungum að þakka, hvernig vatnið fær á sig annan lit í ljósaskiptunum. Fólki finnst þetta alveg ógleymanlega magnað. Vatnið er bæði sérstakt á litinn og svo hefur það alveg sérstaka áferð.“
Guðmundur bætir því við að sér þyki það einstaklega ánægjulegt að flestir gestir Jarðbaðanna hafi samkvæmt þjónustukönnunum heyrt af þeim af afspurn frá vinum eða ættingjum – og orðspor sé einmitt alla jafna áhrifaríkasta auglýsingin, frekar en almennar auglýsingar. „Fólk heyrir af okkur, hrífst af því sem það heyrir og kemur til okkar í kjölfarið. Gott umtal og góðar heimtur í framhaldinu. Þetta er okkur ákaflega verðmætt því umtalið er eins og áður sagði ein áhrifaríkasta auglýsingin og það sem meira er, hún er líka sú ódýrasta,“ bætir hann við.
Á næstu árum ætla Jarðböðin að mæta auknum gestafjölda með því að stórbæta aðstöðuna enn frekar. Þeim framkvæmdum er áætlað að ljúka sumarið 2020 og óhætt er að segja að það standi mikið til.
„Áætlunin er semsagt að stækka aðstöðuna og við erum í hönnunarferli þar að lútandi um þessar mundir,“ útskýrir Guðmundur. „Við ætlum sem sagt að byggja nýja aðstöðu frá grunni og bætum um leið við baðlónið sjálft. Þarna erum við að tala um gerbreytt umhverfi, því þetta verður í raun alveg nýr baðstaður og nýtt þjónustuhús með öllu.“
Að sögn Guðmundar er þó ekki meiningin að fjölga skápum til mikilla muna með það fyrir augum að geta fengið fleiri gesti inn, heldur er verið að horfa til þess að auka rýmið og bæta aðstöðuna fyrir hvern og einn gest til að auka á upplifun hans enn frekar. Engu að síður fjölgar skápaplássum nokkuð og fara þau úr 440, eins og nú er, og yfir í 550. „Við erum ekki að einblína á að bæta við gestum, heldur er markmiðið að auka við upplifun þeirra sem hingað koma.“