Hagar náðu sér nokkuð fljótt á strik eftir hrunið, enda þurfti félagið ekki að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Hafa sum undirfélög samsteypunnar afrekað það að vera frá upphafi á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Hagar komust aftur á listann fyrri nokkrum árum og segir Finnur Árnason, forstjóri fyrirtækisins, að um mikilvæga viðurkenningu sé að ræða. „Að komast á listann byggist ekki bara á árangri eins árs, heldur þurfa ákveðin hlutföll í rekstri og efnahag að vera góð og stöðug til lengri tíma,“ segir hann. „Fyrirtæki Haga eru í grunninn rótgróin íslensk fjölskyldufyrirtæki og njótum við þess að hafa á frábæru starfsfólki að skipa, sem leggur metnað sinn í að þjóna viðskiptavinum félagsins á hverjum degi.“
Viðurkenningin sem veitt er í ár byggist á rekstrartölum ársins 2016 sem Finnur segir að hafi verið prýðilegt ár, rétt eins og árin þar á undan. „Síðan þá hefur gefið aðeins á bátinn en reksturinn er enn góður og stöðugur og við höfum lagt áherslu á kjarnastarfsemina samhliða því að greiða niður skuldir.“
Undir Haga heyra matvöruverslanakeðjurnar Bónus og Hagkaup, og að auki kjötverkandinn Ferskar kjötvörur, vöru- og dreifingarfyrirtækið Aðföng, innflytjandinn Bananar, vöruhúsið Hýsing, íþrótta- og útivistarvöruverslunin Útilíf og tískuverslunin Zara. Rekstrarskilyrði margra af þessum félögum hafa breyst töluvert á undanförnum misserum, bæði til hins betra og til hins verra.
Finnur nefnir að með batnandi efnahag þjóðarinnar hafi fataverslun færst í auknum mæli til útlanda. „Hærri ráðstöfunartekjur þýða að fólk getur ferðast meira og keypt sér föt erlendis. Netverslun hefur líka aukist og aðgangur neytenda að fatnaði er orðinn allt annar en hann var áður. Á móti kemur að stjórnvöld felldu niður tolla á fatnaði og afnámu með því þann tvöfalda toll sem verið hefur á megninu af þeim fatnaði sem fluttur er inn til landsins,“ segir Finnur og útskýrir að þar sem íslenski markaðurinn reiði sig mikið á birgja í Evrópu, sem kaupi fatnaðinn frá öðrum heimshlutum, hafi iðulega verið greiddir tollar í tvígang af sömu flíkinni. „Lagður er tollur á vöruna þegar hún kemur til Evrópu, og hér áður bættist við 15% tollur á Íslandi.“
Styrking krónunnar hefur líka hjálpað verslununum að verða samkeppnishæfari: „Ef við skoðum verslun eins og Zöru hefur einingaverð fyrir sambærilega vöru í mörgum tilvikum lækkað hér á landi um 30% á síðastliðnum þremur árum.“
Sveiflur í gengi krónunnar hafa ekki jafn afgerandi áhrif á matvörumarkaði enda myndar innlend vara að jafnaði um 60-70% af innkaupakörfu íslenskra heimila. „Þar hafa kostnaðarhækkanir, bæði vegna launahækkana og annars kostnaðar, valdið því að hækkun hefur orðið á innlendum vörum.“
Koma Costco fór ekki framhjá neinum og hafði innkoma bandaríska risans nokkur áhrif á verslun Íslendinga á síðasta ári. Hagar birtu síðast afkomutölur í janúar fyrir tímabilið mars til nóvember og kom þar í ljós að sölusamdráttur mældist 5% þegar horft er til sömu búða. „Við erum að halda kúnnafjöldanum en hver viðskiptavinur kaupir minna, auk þess sem almenn verðhjöðnun er á dagvöru,“ segir Finnur. „Það skiptir okkur miklu máli að þrátt fyrir að fá þennan nýja keppinaut inn á markaðinn, og félag sem er 150-200 sinnum stærra en Hagar, hefur okkur tekist að vera áfram með lægsta dagvöruverðið á Íslandi. Bónus hefur frá upphafi verið með lægsta matvöruverðið, er með sama verðið í 32 verslunum um land allt, og hafa sjö nýlegar verðkannanir ASÍ og fjölmiðla staðfest að Bónus er oftar en nokkur önnur matvöruverslun með lægsta verðið.“
Finnur segir rekstur Haga hafa verið frekar íhaldssaman undanfarin ár, og m.a. hefur samsteypan bæði fækkað verslunum sínum og minnkað aðrar. „Síðastliðin tvö ár hefur verslunarfermetrum okkar fækkað um 20.000 og skýrist meðal annars af minnkun verslana Hagkaups í Kringlunni og Smáralind, lokun Útilífs í Glæsibæ og Debenhams, auk tískuverslana og Outlet-verslunar í Korputorgi.
Að því sögðu þá hafa Hagar líka ráðist í fjárfestingar á nýjum sviðum til að renna sterkari stoðum undir reksturinn. Í apríl voru tilkynnt kaup Haga á Olís og er sá samningur nú í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu. Finnur er vongóður um að kaupin gangi eftir og segir hann mikil samlegðar- og sóknarfæri fólgin í því að bæta rekstri Olís við samsteypuna. Síðastliðið sumar stöðvaði Samkeppniseftirlitið aftur á móti kaup Haga á Lyfju en talin var hætta á að kaupin myndu hafa neikvæð áhrif á samkeppni á snyrtivörumarkaði í ákveðnum landshlutum. „Það mál fór því á núllpunkt hjá ríkissjóði sem seljanda og bíðum við átekta,“ segir Finnur.