Ákvörðun tekin í ljósi þungbærra áfalla

Primera Air.
Primera Air. Ljósmynd/Primera Air

Primera Air hefur staðfest þær fréttir að félagið muni fara fram á greiðslustöðvun á morgun og hætta allri starfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér fyrir skömmu. Áður höfðu fréttir þess efnis verið fullyrtar á vef Aviation24.be og vísað í tölvupóst starfsmanna þar sem þeim var tilkynnt að bæði Primera Air Nordic og Primera Air Scandinavia myndu leggja fram gjaldþrotabeiðni 2. október. Þessar fréttir hafa nú verið staðfestar.

Aðeins er rúmur mánuður síðan Andri Már Ingólfsson, eigandi og forstjóri Primera Air Travel Group, greindi frá því í samtali við mbl.is félagið hygðist tvöfalda flugvélaflota sinn fyrir lok árs 2019. Þá sagði hann að ellefu nýir áfangastaðir yrðu kynntir á næstunni. Þetta átti að vera búið að fjármagna. Það virðist hins vegar ekki hafa dugað til.

„Þetta eru mikil vonbrigði fyrir starfsfólk og viðskiptavini félagsins eftir árangursríkan rekstur í 14 ár. Ákvörðunin er tekin í ljósi þungbærra áfalla á síðasta ári þar sem félagið missti m.a. flugvél úr flota sínum vegna tæringar, en það hafði í för með sér viðbótarkostnað upp á 1,5 milljarða króna og jafnframt mikilla seinkana á afhendingu flugvéla frá Airbus á þessu ári. Þær tafir hafa kostað Primera Air um 2 milljarða á árinu 2018. Slík áföll er erfitt að standast í því rekstrarumhverfi sem ríkir á þessum markaði,“ segir í tilkynningu frá Primera Air sem send var út síðdegis.

Þar segir jafnframt að verulega hlutafjáraukningu hefði þurft til að mæta því tapi sem þegar hefur orðið sem og að takast á við þá uppbyggingu sem unnið var að, en á næsta ári átti félagið t.d. að taka á móti 10 nýju flugvélum frá Boeing. 

„Stjórn Primera Air tók þá ákvörðun að hætta rekstri á þessum tímapunkti með áðurnefnt í huga, en jafnframt var horft til síhækkandi olíuverðs, lækkandi farmiðaverðs á öllum mörkuðum, sem og þess að lágmarka óþægindi viðskiptavina félagsins. Stjórn félagsins telur einnig að það væri ábyrgðarhluti að fara í svo stóra fjárfestingu sem kaup á 10 nýjum Boeing flugvélum væri, án þess að fulltryggja slíkt til enda, og til að koma í veg fyrir tjón birgja og leigusala. Að lenda í svo stórum áföllum og ekki geta tryggt áframhaldandi rekstur, eru óendanleg vonbrigði öllum sem að félaginu standa.“

Að lokum þakkar Primera Air starfsfólki sínu fyrir ótrúleg störf í gegnum árin, og viðskiptavinum sínum traustið.

„Við erum búin að fjár­magna þetta“

Í lok ágúst sagði Andri Már Ing­ólfs­son, for­stjóri og eig­andi Pri­mera Tra­vel Group, í samtali við mbl.is að Primera Air ætlaði sér stóra hluti í lággjaldaflugi á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

„Við erum með gjör­ólíkt viðskipta­mód­el miðað við Icelanda­ir og WOW air sem byggja allt sitt upp í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl. Það er leið sem við völd­um að fara ekki í á sín­um tíma,“ sagði Andri í ágúst.

„Við erum í ein­stakri stöðu að geta verið fyrsta flug­fé­lagið til þess að fara inn á þess­ar stóru flug­leiðir yfir Atlants­hafið með þess­ari hag­kvæmni,“ sagði hann jafnframt.

Flugvélafloti Primera Air samanstóð þá af 15 flug­vél­um, en samkvæmt Andra áttu vélarnar að verða orðnar vél­arn­ar 27 í lok næsta árs. Jafnframt átti að kynna til sögunnar ellefu nýja áfangastaði.

„Við erum búin að fjár­magna þetta. Þetta er búið að vera lang­tíma­verk­efni að borga inn á alla þessa samn­inga sem lúta að því. Síðan erum við að ganga frá lang­tíma­fjár­mögn­un fyr­ir fé­lagið. Það mun styrkja okk­ur mjög í þess­um vexti sem fram und­an er,“ sagði Andri, en fram kom í umfjöllun mbl.is að fyrirtækið hefði fjár­magnað sig bæði með lán­töku og hluta­fjáraukn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK