Vitum ekki hvenær við komumst heim

700 Svíar eru nú sagðir vera strandaglópar í Grikklandi og …
700 Svíar eru nú sagðir vera strandaglópar í Grikklandi og á Spáni eftir flug með Primera Air. Ljósmynd/Aðsend

Greiðslustöðvun Primera Air-flugfélagsins hefur áhrif á þúsundir norrænna ferðalanga að því er fram kemur í norrænum miðlum sem fjallað hafa um gjaldþrot flugfélagsins nú í kvöld.

Jyllandsposten og danska ríkisútvarpið DR segja dönsku ferðaskrifstofuna Bravo Tours nú vinna að því hörðum höndum að koma ferðalöngum, sem flugu með Primera Air, heim á ný og sænska dagblaðið Göteborgposten segir 700 Svía nú vera strandaglópa í Grikklandi og á Spáni eftir flug með Primera Air.

„Við erum á fullu við að leita lausna fyrir viðskiptavini okkar. Þetta kann að verða óreiðukennt næstu daga, en við munum ná gestum okkar heim,“ hefur Jyllandsposten eftir Peder Hornshøj, framkvæmdastjóra hjá Bravo Tours.

„Við flytjum einhverja gesti heim með áætlunarflugi, en við erum að annars að finna leiguflug fyrir flesta okkar kúnna,“ sagði Hornshøj.

Einnig sé unnið hörðum höndum að því að finna nýjar vélar fyrir þær ferðir sem fram undan séu, en að sögn Hornshøj hafa um 70% af öllum pakkaferðum Bravo Tours verið með flugvélum Primera Air.

Áttu að sofa með teppi á flugvellinum

Jyllandsposten hefur einnig eftir dönskum ferðalöngum, sem nú eru strandaglópar á flugvelli í Grikklandi að þeir viti ekki hvenær þeir komist heim.

„Fyrst sögðu þeir að við fengjum teppi og að við ættum að sofa á flugvellinum,“ sagði Maja Rand sem var í Aþenu með fjölskyldunni. Skömmu síðar hafi þeim þó verið sagt að rúta myndi sækja þau svo þau geti gist á hóteli. „Ég spurði einn starfsmanna Bravo Tours, þegar við fórum inn í rútuna, hvort að hún vissi hvenær við kæmumst heim og hún sagðist bara ekki vita það.“

Norska ríkisútvarpið NRK segir norsku ferðaskrifstofuna Solia, sænsku ferðaskrifstofuna Solresor og dönsku ferðaskrifstofuna Bravo Tours allar vera í eigu Primera Air, en flugfélagið hefur um árabil flogið með íbúa Skandinavíu til þekktra orlofsstaða við Miðjarðarhafið, Madeira, Azoreyjanna og til Kanaríeyja.

DR segir ferðaskrifstofuna Apollo einnig biðja viðskiptavini sína að anda rólega, þeir muni komast í fríið þrátt fyrir greiðslustöðvun Primera Air og raunar sé þegar búið að leysa vanda margra.

„Þetta er ekki mikið til að hafa áhyggjur af,“ hefur DR eftir samskiptastjóra Apollo, Glen Bisgaard. „Við gerum allt sem við getum til að okkar viðskiptavinir komist í fríið sem þeir pöntuðu.“

BBC greinir einnig frá greiðslustöðvun Primera Air og segir merki um greiðsluerfiðleika flugfélagsins hafa komið fram í ágúst, er Primera Air hætti við flug frá Birmingham til nokkurra áfangastaða í Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK