Arion banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun vegna neikvæðra áhrifa á afkomu þriðja ársfjórðungs. „Vegna ófyrirséðra atburða gerir Arion banki hf. ráð fyrir að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi ársins,“ segir í tilkynningu frá bankanum.
Áhrifin munu nema um 1,3 – 1,8 milljörðum króna, að teknu tilliti til skatta, og mun hlutfall eiginfjárþáttar 1 lækka um um það bil 0,2 prósentustig vegna þessa.
Þar segir að fyrirgreiðslurnar tengist félagi sem hefur verið í viðskiptum við bankann og fyrirrennara hans um árabil.
Haraldur Guðni Eiðsson hjá samskiptasviði Arion banka sagðist í samtali við mbl.is ekki geta staðfest hvort um sé að ræða flugfélagið Primera Air, sem hefur óskað eftir greiðslustöðvun. Á vefsíðunni Turisti.is kemur fram að félagið hafi átt í viðskiptum við Arion banka.
Hlutabréf í Arion banka hafa lækkað um 7,7% í kauphöllinni í Stokkhólmi í morgun en síðustu viðskipti með bréf bankans voru á genginu 6,19 sænskar krónur. Hlutabréfin hafa lækkað um tæp 22% á einum mánuði og rúm 15% síðustu þrjá mánuði.
Arion banki var skráður í Nasqad-kauphallirnar í Reykjavík og Stokkhólmi 15. júní og var sú skráning sú næststærsta í Íslandssögunni og fyrsta skráning íslensks banka í kauphöll frá hruni.
„Fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, t.a.m. varðandi þróun eiginfjár, haldast óbreytt. Að mati bankans er um einskiptisatburð að ræða sem hefur ekki áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað,“ segir í tilkynningunni.
Afkoma bankans fyrir þriðja ársfjórðung verður birt 31. október.