„Hefði þurft gríðarlega djúpa vasa“

Andri segir að grunnhorfurnar hafi ekki verið að fara að …
Andri segir að grunnhorfurnar hafi ekki verið að fara að breytast. Ljósmynd/Aðsend

Andri Már Ingólfsson, eigandi flugfélagsins Primera Air, sem hætti starfsemi í gær eftir 14 ár í rekstri og óskaði eftir greiðslustöðvun, segir í samtali við Morgunblaðið að niðurstaðan sé gríðarleg vonbrigði. „Sárast er þó að sjá þetta uppbyggingarstarf hverfa fyrir allt þetta góða starfsfólk sem hefur unnið að þessu þetta lengi,“ segir Andri.

Hann segir að það hafi ekki orðið ljóst fyrr en síðastliðinn mánudag kl. 14 hvernig færi, en bæði hafi verið leitað eftir því að auka eigið fé félagsins með skuldabréfaútboði upp á 40 milljónir evra, auk þess sem viðræður hafi staðið yfir við nýjan kjölfestufjárfesti. „Við vorum í viðræðum um að fá kjölfestufjárfesti inn í félagið sem okkur leist mjög vel á.“

Spurður nánar um ástæður þess að svo illa fór, segir Andri að bæði hafi félagið þurft á brúarfjármögnun að halda í vetur, auk langtímafjármögnunar fyrir félagið. Þegar horfurnar hafi verið skoðaðar hafi verið ljóst að verulega mikið aukið fé þyrfti til að hrinda í framkvæmd áætlunum félagsins um aukningu í áætlunarflugi.

„Grunnhorfurnar voru ekkert að fara að breytast, hvorki hjá Primera Air né öðrum flugfélögum. Ef við hefðum átt að halda sjó í gegnum þetta næstu tvö árin hefði þurft gríðarlega djúpa vasa. Ég taldi það ekki forsvaranlegt.“

Í tilkynningu frá Primera Air í gær kom fram að ákvörðun um að lýsa félagið gjaldþrota hefði verið tekin í ljósi þungbærra áfalla á síðasta ári. Félagið hafi meðal annars misst flugvél úr flota sínum vegna tæringar sem hafði í för með sér viðbótarkostnað upp á 1,5 milljarða króna. Jafnframt hefðu orðið miklar seinkanir á afhendingu flugvéla frá Airbus sem kostað hafi Primera Air um 2 milljarða króna.

Veru­lega hluta­fjáraukn­ingu hefði þurft til að mæta því tapi sem þegar hefði orðið sem og til að tak­ast á við þá upp­bygg­ingu sem unnið var að.

Andri segir að gjaldþrotið hafi ekki áhrif ferðaskrifstofuna Primera Travel Group, sem er með alla sína starfsemi í Skandinavíu og á Íslandi. Það hafi tekist að finna flug handa öllum þeim sem keypt höfðu ferðir hjá ferðaskrifstofunni.

Ítarlegra viðtal við Andra má finna í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK