Samgöngustofa hefur þurft að fjölga starfsfólki í símsvörun frá því fregnir bárust af gjaldþroti Primera Air í fyrradag. „Við aðstoðum fólk og gefum því upplýsingar eins og við getum. Það hefur verið töluvert álag í símsvörun og við þurftum að bæta við starfsfólki í þeirri deild,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, í samtali við mbl.is.
Primera Air starfar á grundvelli flugrekstrarleyfa útgefnum af lettneskum og dönskum stjórnvöldum og því hefur Samgöngustofa ekki beina milligöngu um lausnir flugfarþega gagnvart flugfélaginu. Það er í höndum danskra og lettneskra flugmálayfirvalda.
Staða viðskiptavina Primera Air er einkum tvenns konar, að sögn Þórhildar. Annars vegar eru það flugfarþegar sem keyptu staka miða með kreditkorti. Þeim er bent á að hafa samband við viðeigandi kortafyrirtæki til þess að kanna möguleika á að fá flugmiðann endurgreiddan.
Hins vegar eru það farþegar sem hafa keypt svokallaða alferð eða pakkaferð af evrópskum ferðaskipuleggjanda, það er samsetta ferð, þar sem flug er selt ásamt gistingu eða öðrum þjónustuþáttum. Þeir farþegar eiga rétt á heimflutningi á grundvelli samevrópskra reglna um alferðir. Farþegum í þessari stöðu er bent á að hafa samband við þann ferðaskipuleggjanda sem þeir keyptu ferðina af.
„Gjaldþrot er erfið staða þar sem enginn er að fara að koma út í sérstökum hagnaði. Allir tapa á því. Þetta er glötuð staða. Réttindin eru einhver, mismikil, en allir tapa,“ segir Þórhildur.
Farþegar eiga jafnframt, í einhverjum tilfellum, að eiga kröfu á hendur Primera Air, meðal annars á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega.
Farþegar sem hafa keypt alferð eru í betri stöðu en farþegar sem hafa keypt staka ferð. Um alferðir gildir sérstök skyldutrygging ferðaskrifstofa. „Ef um alferð er að ræða eiga farþegar rétt á endurgreiðslu í gegnum þennan skyldutryggingasjóð. Skyldutryggingin á hins vegar ekki við um fólk sem hefur keypt stakar flugferðir,“ segir Þórhildur.
Á heimasíðu Samgöngustofu er hægt að nálgast ítarlegra efni um réttindi flugfarþega vegna gjaldþrots flugrekenda.