Tengir Dekhill við Kaupþingsmenn

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir. mbl.is/Ásdís

Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson gerir því skóna að á bak við aflandsfélagið Dekhill Advisors standi stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings. Félagið hefur verið í umræðunni vegna aðkomu að sölu Búnaðarbankans á sínum tíma og hafa yfirvöld hér á landi lengi reynt að fá upplýst hver sé raunverulegur eigandi þess.

Í nýjum pistli á vefsíðu sinni fer Björgólfur yfir einkavæðingu ríkisbankanna um síðustu aldamót. Segir hann kaupin á Búnaðarbankanum hafa verið blekkingarleik og að með „aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum var sett upp flétta, sem tryggði Ólafi Ólafssyni og félaginu Dekhill Advisors 11 milljarða króna á núvirði“.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu Búnaðarbankans var meðal annars reynt að komast að því hver væri eigandi Dekhill. Þá óskaði skattrannsóknarstjóri eftir upplýsingum frá Sviss, þar sem félagið er skráð, um hverjir eigendur þess væru. Svissnesk yfirvöld neituðu hins vegar þeirri beiðni. Sagði skattrannsóknarstjóri sig þó hafa trúverðugar vísbendingar um hvaða aðila þarna væri að ræða og að upplýsingum um það hefði verið komið til svissneskra yfirvalda.

Í færslu sinni í dag telur Björgólfur sig vita hverjir eigi félagið. „Því er vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eiga Dekhill Advisors, en ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings.“

Exista var stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun og voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson forstjóri og stjórnarformaður bankans. Ráðandi eigendur í Exista voru þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.

Rannsóknarnefndin spurði þá bræður, Hreiðar og Sigurð, um félagið og sögðust bræðurnir meðal annars ekki reka minni til þeirra atriða sem tengdust félaginu og nefndin spurði um. Þá sagðist Sigurður ekki geta aðstoðað með að svara spurningunum og Hreiðar Már sagðist aldrei hafa heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors. Fleiri lykilstjórnendur Kaupþings voru einnig spurðir um þetta, en enginn kannaðist við félagið.

Er Björgólfur harðorður í garð Kaupþingsmanna og segir að bæði upphaf og endir sögu bankanna markist af braski þeirra. „Þeir keyptu Búnaðarbankann með því að segja ósatt um aðkomu þýsks banka. Og þeim tókst líka að bjaga allar björgunartilraunir í ráðherrabústaðnum dagana fyrir hrun með því að segja ósatt um aðkomu Al-Thani,“ segir Björgólfur og vísar til niðurstöðu Hæstaréttar í Al Thani-málinu þar sem stjórnendur Kaupþings og Ólafur Ólafsson fjárfestir voru dæmdir í fangelsi.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Björgólfur ræðst að Kaupþingsmönnum. Í fyrra kallaði hann S-hópinn svokallaða meðal annars „svika-hóp“ og hóp „þjóðkunnra tækifærissinna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka