Travelco kaupir ferðaskrifstofur Primera

Andri Már Ingólfsson er stærsti hluthafi Travelco.
Andri Már Ingólfsson er stærsti hluthafi Travelco. mbl.is/Kristinn Magnússon

Travelco hefur keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group og tekið yfir skuldir við Arion banka. Travelco er nýtt eignarhaldsfélag og er Andri Már Ingólfsson, eigandi flugfélagsins Primera Air, stærsti hluthafi félagins. 

Fram kemur í tilkynningu, að í kjölfar lokunar Primera Air hafi ferðaskrifstofur Primera Travel Group tapað háum fjárhæðum vegna flugferða sem greiddar höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flognar.

„Kaupa varð önnur flug fyrirvaralaust, til að vernda farþega fyrirtækjanna. Til að tryggja rekstur ferðaskrifstofanna var stofnað nýtt eignarhaldsfélag með milljarð í nýju hlutafé, sem að stórum hluta hefur nú þegar verið greitt inn. Rekstur allra fyrirtækjanna hefur nú verið fluttur undir Travelco Nordic A/S í Danmörku, sem hét áður Primera Travel A/S, en það félag heldur áfram óbreyttum rekstri,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að öll félögin hafi verið færð undir það félag til að einfalda félagið og styrkja eigið fé þess eftir áföllin.

„Félagið stendur við allar skuldbindingar sínar gagnvart öllu starfsfólki og birgjum og heldur áfram rekstri allra ferðaskrifstofanna óbreyttum.  Andri Már Ingólfsson er stærsti hluthafi Travelco,“ segir í tilkynningunni. 

„Hefði þurft gríðarlega djúpa vasa“

Greint var frá því í byrjun mánaðarins, flugfélagið Primera Air, sem er að fullu í eigu Andra Más, hefði hætt starfsemi eftir 14 ár í rekstri og farið fram á greiðslustöðvun. 

Hann sagði í samtali við mbl.is, að niðurstaðan hefði verið gríðarleg vonbrigði. Hann sagði að það hefði ekki orðið ljóst fyrr en mánudaginn 1. október kl. 14 hvernig færi, en bæði hefði verið leitað eftir því að styrkja stöðu félagsins með skuldabréfaútboði upp á 40 milljónir evra, auk þess sem viðræður hafi staðið yfir við nýjan kjölfestufjárfesti. „Við vorum í viðræðum um að fá kjölfestufjárfesti inn í félagið sem okkur leist mjög vel á.“

Spurður nánar um ástæður þess að svo illa fór, sagði Andri að bæði hafi félagið þurft á brúarfjármögnun að halda í vetur, auk langtímafjármögnunar fyrir félagið.

„Undanfarna mánuði hafa horfur á flugmarkaði ekki farið batnandi, þvert á móti. Það eru ansi miklar blikur á lofti víða. Olíuverð hefur tvöfaldast á síðustu 12 mánuðum og verðlækkun á mörkuðum hefur verið miklu hraðari en menn gerðu ráð fyrir. Við hófum þetta endurfjármögnunarferli í júní, til að komast í gegnum veturinn og fara í þessa stóru aukningu næsta sumar [innsk.blm.: beint áætlunarflug frá meginlandi Evrópu til Ameríku á 10 nýjum langdrægum Boeing Max-9 LR-vélum]. Þegar menn skoðuðu horfurnar og sáu að það þyrfti verulega mikið aukið eigið fé til að hrinda þessu í framkvæmd, þá áttuðu menn sig á að það myndi hafa enn alvarlegri afleiðingar að halda áfram rekstri en ekki. Grunnhorfurnar voru ekkert að fara að breytast, hvorki hjá Primera Air né öðrum flugfélögum. Ef við hefðum átt að halda sjó í gegnum þetta næstu tvö árin hefði þurft gríðarlega djúpa vasa. Ég taldi það ekki forsvaranlegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK