Arion með aukin veð í eignum Andra

Ferðavefurinn Túristi kveðst hafa heimildir fyrir því að Arion banki nú fengið allsherjarveð í eignum Primera Travel Group, það er húseign Heimsferða, vörumerkjum Heimsferða og Terra Nova og lénum ferðaskrifstofanna. Arion banki var einn af viðskiptabönkum Primera Air og sendi frá sér afkomuviðvörun eftir að Primera Air fór fram á greiðslustöðvun í byrjun mánaðarins.

Fram kemur á vefnum, að þetta séu veð upp á annars vegar 190 milljónir danskra króna (um 3,4 milljarða kr.) og hins vegar 11 milljónir evra (1,5 milljarður). Samanlagt veð upp á rétt um 5 milljarða króna.

Andri Már Ingólfsson.
Andri Már Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greint var frá því í gær að Tra­velco, sem er nýtt eignarhaldsfélag sem Andri Már Ingólfsson á meirihluta í, hafi keypt all­ar ferðaskrif­stof­ur Pri­mera Tra­vel Group og tekið yfir skuld­ir við Ari­on banka. 

„Rekst­ur allra fyr­ir­tækj­anna hef­ur nú verið flutt­ur und­ir Tra­velco Nordic A/​S í Dan­mörku, sem hét áður Pri­mera Tra­vel A/​S, en það fé­lag held­ur áfram óbreytt­um rekstri,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, greinir frá því, að Andri Már hafi í gærmorgun lofað að gefa honum skýringar um breytt eignarhald á ferðaskrifstofum hans á hinum Norðurlöndunum.  

„Klukkustund eftir að fyrrnefnt svar barst frá Andra þá birti Túristi frétt sína um málið. Í millitíðinni hafði hins vegar almannatengill Andra komið fréttatilkynningu á fjölmiðla, þó ekki til Túrista, þar sem sagt var frá því að Travelco, nýtt eignarhaldsfélag, hefði keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group,“ skrifar Kristján.

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is Ljósmynd/Aðsend

Þar segir, að svarið við spurningunni sem Túristi hafi borið upp í gærmorgun hafi þá verið að allur rekstur Primera Travel Group, sem sé skráð á Íslandi og sé í eigu Andra, hafi verið fluttur í danska dótturfélagið Primera Travel í Danmörku og það fyrirtæki endurnefnt Travelco Nordic. 

„Í tilkynningunni segir líka að hið nýja félag hafi tekið yfir skuldir Primera Travel Group við Arion banka. Í kjölfarið spurði Túristi hvað yrði um Primera Travel Group en svar við þeirri spurningu hefur ekki borist. Þess má geta að samkvæmt ársreikningi þessa fyrrum móðurfélags ferðaskrifstofanna og flugfélagsins þá tapaði það rúmum 700 milljónum í fyrra en hátt í 2 milljörðum í hittifyrra,“ skrifar Kristján.

Hann bendir ennfremur á, að Arion banki hafi nú þegar tapað töluverðum upphæðum á viðskiptum sínum við Primera Travel Group því daginn sem Primera air hafi orðið gjaldþrota sendi bankinn út tilkynningu um tap upp á allt að nærri 2 milljarða vegna viðskiptavinar.

„Þó nafn Primera air hafi þar ekki komið fram er enginn vafi á að þarna var átt við flugfélagið. Og samkvæmt heimildum Túrista þá hefur Arion banki nú fengið allsherjarveð í eignum Primera Travel Group, það er húseign Heimsferða, vörumerkjum Heimsferða og Terra Nova og lénum ferðaskrifstofanna. Eru veðin upp á annars vegar 190 milljónir danskra króna (um 3,4 milljarða kr.) og hins vegar 11 milljónir evra (1,5 milljarður). Samanlagt veð upp á rétt um 5 milljarða króna,“ skrifar Kristján.

Upplýsingafulltrúi Arion banka vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði upplýsinga hjá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK