Kröfur í þrotabú danska hluta flugrekstrar Primera Air nema 16,4 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt frétt danska miðilsins Jyske Vestkysten. Kröfuhafar eru þegar orðnir um 500 talsins.
Ferðamálavefurinn Túristi.is fékk staðfest frá skiptastjóra búsins að þær tölur sem koma fram í umfjöllun danska miðilsins eigi einungis við um danska hluta flugrekstrarins.
Flugrekstur Primera Air var einnig starfræktur frá Lettlandi, en gjaldþrotabeiðnir fyrir bæði danska og lettneska félagið voru lagðar fram 2. október sl.
Samkvæmt umfjöllun danska miðilsins eru kröfuhafarnir í búið um það bil fimm hundruð talsins, en eignir þrotabúsins eru sagðar metnar á um hálfan milljarð íslenskra króna. Í fréttinni er þó tekið fram að endanlegar tölur um kröfur og eignir þrotabúsins liggi ekki fyrir og geti enn tekið breytingum.
Á laugardag kom fram í fréttatilkynningu að Travelco, danskt félag í eigu Andra Más Ingólfssonar, eiganda Primera Air, hefði keypt allar ferðaskrifstofurnar sem reknar voru undir merkjum Primera Travel Group og sömuleiðis tekið yfir skuldir við Arion banka.
Í þeirri tilkynningu kom fram að í kjölfar lokunar Primera Air hefðu ferðaskrifstofur Primera Travel Group tapað háum fjárhæðum, vegna flugferða sem greiddar höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flognar.