4,6 milljónir og einn bíll í búinu

Primera Air varð gjaldþrota í byrjun mánaðarins.
Primera Air varð gjaldþrota í byrjun mánaðarins.

Aðeins 250 þúsund danskar krónur og einn bíll er það sem skiptastjórar í búi Primera hafa fundið við uppgjör þess. Líklegt er miðað við þessa stöðu að þeir loki þrotabúinu fljótlega þar sem engir peningar eru til að greiða laun fyrir uppgjör búsins. Frá þessu er greint á vef danska miðilsins Fyens Stifstidende og er haft eftir Morten Hans Jakobsen, einum af þremur skiptastjórum félagsins.

Jakobsen segir við miðilinn að bíllinn hafi verið seldur fyrir 150 þúsund danskar krónur, eða sem sem nemur 2,7 milljónum íslenskra króna. Þá hafi innistæður á bankareikningum numið 250 þúsund dönskum krónum, eða sem nemur 4,6 milljónum íslenskra króna. Samtals hafa skiptastjórar því fundið 7,3 milljónir í búinu.

Þegar tilkynnt var um gjaldþrot Primera 1. október gáfu forsvarsmenn félagsins upp við dómstól að 5,1 milljón danskra króna væru á bankareikningi félagsins og aðrar eignir upp á 1,5 milljónir danskra króna. Nemur það samtals um 121 milljón íslenskra króna.

Segir Jakobsen að vegna þessa skoði skiptastjórarnir nú hvort að greitt hafi verið úr búinu og sumir kröfuhafar fengið forgang á aðra. Þá segir hann jafnframt að miðað við stöðuna núna, þar sem litlir sem engir fjármunir finnast í búinu, þá muni þeir loka búinu fljótlega. Segir hann skiptastjórana í raun vinna frítt hjá búinu núna. Jakobsen telur horfurnar ekki bjartar fyrir lánardrottna félagsins.

Um miðjan mánuðinn sögðu danskir miðlar frá því að kröfur í félagið væru um 16,4 milljarðar íslenskra króna og að kröfuhafar væru 500 talsins.

Stuttu áður var tilkynnt um að Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi eigandi Primera Air, hefði keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group og tekið yfir skuldir við Arion banka. Fóru eignirnar inn í nýtt eignarhaldsfélag Andra sem heitir Travelco.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka