Fjármálalæsið verra en hjá öðrum

Íslenskum neytendum stendur til boða að taka hávaxta skammtímalán með …
Íslenskum neytendum stendur til boða að taka hávaxta skammtímalán með auðveldum hætti. Þeir sem þau taka eru að jafnaði með verra fjármálaleysi en almennir neytendur. mbl.is/Arnar

„Þeir sem tóku smálán virðast vera með verra fjármálalæsi en almennir neytendur. Þessir aðilar eru einnig yngri, með lægri tekjur og menntun og voru einnig líklegri til að vera karlar, oft ungir karlar,“ segir Sigurður Guðjónsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Hann vann rannsókn ásamt Kára Kristinssyni og Davíði Arnarsyni, sem er sú fyrsta hérlendis sem beinist að því að skoða þann hóp sem tekur smálán, hávaxtaskammtímalán sem hafa steypt mörgum í miklar fjárhagsskuldir eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum mörg undanfarin ár.

Rannsóknin spratt upp úr meistaraverkefni Davíðs, sem ákvað að skoða þetta efni eftir talsverðan fréttaflutning af því að þeir sem tækju smálán notuðu þau til að fjármagna daglega neyslu, oft með slæmum afleiðingum fyrir fjárhag þeirra.

Dr. Sigurður Guðjónsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Dr. Sigurður Guðjónsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Sigurður og félagar sendu spurningalista á 1.100 viðskiptavini fjármálafyrirtækjanna sem veita smálán og sama spurningalista á litlu minna slembiúrtak úr þjóðskrá og báru svör hópanna saman, en til þess að mæla fjármálalæsið voru þátttakendur spurðir um viðhorf sín til fjármálalæsis og einnig spurninga sem gáfu til kynna fjármálalæsi.

Niðurstöðurnar komu ekki sérstaklega á óvart, að sögn Sigurðar.

„Það eru til erlendar rannsóknir sem gáfu svipaða hluti til kynna, sérstaklega hvað varðar lægri tekjur og menntun og aldur. Það er ekkert skrítið að þeir sem eru óreyndir í lífsins ólgusjó skuli reka sig á svona hluti. Það kom þó svolítið á óvart að þetta skyldu frekar vera karlkyns einstaklingar sem virðast lenda verst í þessu,“ segir Sigurður og bætir við að rannsakendurnir hafi velt því fyrir sér hvort það sé hópur sem hafi gleymst í samfélaginu; illa settir ungir karlmenn.

„Gleymst að því leyti að þeir eru kannski hópur sem stendur illa. Það er svolítið vont ef svona hlutir koma þeim á hnén strax í byrjun og það myndast vítahringur,“ segir Sigurður.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru kynntar á félagsvísindaráðstefnunni Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands í dag.

Dagskrá Þjóðarspegilsins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka