Erfiðara að ná til smálánafyrirtækja

Smálánafyrirtæki virðast starfa áfram þrátt fyrir gjaldþrot, en eru til …
Smálánafyrirtæki virðast starfa áfram þrátt fyrir gjaldþrot, en eru til húsa erlendis. Erfiðara getur verið að ná til þeirra segir Neytendastofa. mbl.is/Golli

„Þetta er aðeins erfiðara fyrir okkur að eiga við, þar sem þeir telja sig væntanlega þurfa að fara eftir dönskum lögum, en aftur á móti er þetta starfsemi sem beinist að íslenskum neytendum þannig að við erum ekki sammála því,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu, um áframhaldandi starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi sem hafa aðsetur erlendis.

Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að smálánafyrirtækin Smálán ehf. og Credit one ehf. (áður Kredia) sem hafa verið úrskurðuð gjaldþrota virðast enn starfa, en smálánastarfsemi undir merkjum fyrirtækjanna er rekin á dönsku vefsvæði og með aðsetur í Danmörku.

Þórunn segir að undir venjulegum kringumstæðum gæti Neytendastofa, á grundvelli gildandi tilskipana, fengið liðsinni frá dönskum eftirlitsstjórnvöldum þegar kemur að málum er snerta starfsemi þessara fyrirtækja.

Hins vegar hafa helstu annmarkar við starfsemi slíkra fyrirtækja verið brot á ákvæði laga um hámarkskostnað við lántöku sem er séríslenskt ákvæði, að sögn sviðsstjórans.

Hún segir Neytendastofu engu að síður telja lögin eiga að gilda í þeim tilfellum sem uppfyllt eru sett skilyrði. „Ef þetta beinist að íslenskum neytendum, á sér stað á Íslandi, lánað er í íslenskum krónum og auglýst er á íslensku, á að fara eftir landslögum á Íslandi,“ segir Þórunn.

Erfiðara er að ná til þessara fyrirtækja með þeim úrræðum sem Neytendastofa býr yfir þegar fyrirtækin eru staðsett erlendis, bætir hún við.

Spurð hvort smálánastarfsemi verði viðvarandi viðfangsefni stofnunarinnar, svarar Þórunn á þann veg að það sé erfitt að segja til um hvert framhaldið verður. Hún vísar til þess að starfshópur er að störfum á vegum stjórnvalda sem er að vinna að skýrslu þar sem einnig verða tillögur að úrbótum. Skýrslan á samkvæmt áætlun að liggja fyrir í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka