Tollar Bandaríkjamanna á kínverskar vörur munu ekki laga viðskiptahallann og það munu vaxtalækkanir til þess að veikja bandaríkjadalinn heldur ekki gera, samkvæmt þremur hagfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem rita í dag bloggfærslu á vef AGS þar sem þeir virðast beina orðum sínum beint til Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Á meðal höfunda færslunnar er Gita Gopinath, aðalhagfræðingur AGS. Í henni segir að aðgerðir Bandaríkjastjórnar muni ekki skila tilætluðum árangri og þess í stað hægja á efnahagskerfi heimsins.
„Hærri tvíhliða tollar eru ólíklegir til þess að minnka samtölu viðskiptahallans, þar sem þeir flytja aðallega viðskipti til annarra ríkja,“ skrifa Gopinath og samstarfsmenn hennar Gustavo Adler og Luis Cubeddu.
„Þess í stað munu tollar líklega vera skaðlegir hagvexti bæði innanlands og á heimsvísu þar sem þeir draga úr trausti á markaði, fjárfestingu og trufla alþjóðlegar virðiskeðjur, á sama tíma og þeir hækka kostnað framleiðenda og neytenda,“ segir í færslu hagfræðinganna.
Einnig segir að áætlanir ríkja um að veikja eigin gjaldmiðil til eigin hagsbóta séu klunnalegar í framkvæmd og verði ólíklega vel lukkaðar. Þrýstingur á seðlabanka um aðgerðir til slíks muni ekki ná markmiðum sínum.
Þá segja höfundarnir að stjórnvöld ættu að forðast það að leggja of mikla áherslu á aðgerðir til þess að veikja gjaldmiðla. Ólíklegt sé að mikill árangur náist í slíku með því að beita peningastefnunni einni og sér – „sérstaklega á 12 mánaða tímabili,“ en nú er rúmt ár til forsetakosninga í Bandaríkjunum.