Innheimtuhættir aðfinnsluverðir

Úrskurðarnefnd lögmannafélagsins taldi það aðfinnsluvert að lögmaðurinn stofnaði kröfu í …
Úrskurðarnefnd lögmannafélagsins taldi það aðfinnsluvert að lögmaðurinn stofnaði kröfu í nafni innheimtufyrirtækisins í heimabanka með þeirri skýringu að greiðslusamkomulag hafi komist á, án þess að slíkt ætti við rök að styðjast og án þess að kærði hafi gengið úr skugga um að samkomualg hefði í reynd komist á. mbl.is/Golli

Úrskurðarnefnd lögmannafélagsins hefur úrskurðað að háttsemi innheimtufyrirtækis vegna smáláns sem tekið var hjá smálánafyrirtækinu Múla árið 2013 sé aðfinnsluverð, en innheimtufyrirtækið stofnaði kröfu í heimabanka kæranda í málinu, án þess að hafa gengið úr skugga um að gengið hefði verið frá greiðslusamkomulagi við kærandann.

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á úrskurðinum í fréttatilkynningu, en þar segir að smálánafyrirtækið sem um ræðir sé Múli og að það sé háttsemi innheimtufyrirtækisins Almennrar innheimtu ehf. sem fundið sé að í úrskurðinum. Fyrirtækið byggi starfsheimildir sínar á lögmannsréttindum Gísla Kr. Björnssonar, forsvarsmanns þess, sem falli undir eftirlit Lögmannafélagsins.

Boðið að greiða höfuðstól til baka

Í tilkynningunni segir að umrætt lán frá árinu 2013 hafi verið endurgreitt síðar sama ár, að því er neytandinn taldi. Í desember árið 2018 hafi honum hafið að berast fjöldi auglýsinga með SMS skilaboðum frá Múla, þá reknu af fyrirtækinu Ecommerce2020 í Danmörku. Hann hafi haft samband við fyrirtækið og beðið um afskráningu úr kerfum þess. Þá hafi hann fengið þau svör að það væri ekki mögulegt þar sem í kerfinu væri skráð lán sem ekki hefði fengist greitt. Þessu mótmælti neytandinn. Fram kemur í úrskurðinum að krafan hafi þó verið gerð óvirk í kerfinu.

„Smálánafyrirtækið brást við þessu með því að „bjóða” neytandanum að „greiða aðeins höfuðstólinn til baka.“ Samdægurs var stofnuð krafa í heimabanka hans, í nafni Almennrar innheimtu ehf., fyrir meintum höfuðstól lánsins auk dráttarvaxta og annars kostnaðar. Með fylgdi sú skýring að krafan væri samkvæmt „greiðslusamkomulagi“ þrátt fyrir að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Aðfinnsluvert að stofna kröfuna

Í úrskurðinum segir að sú háttsemi lögmannsins, að stofna til kröfu [...] í heimabanka kærandans [...] með þeirri skýringu að greiðslusamkomulag hafi komist á, án þess að slíkt ætti við rök að styðjast og án þess að kærði hafi gengið úr skugga um að samkomulag hefði í reynd komist á, sé aðfinnsluverð.

„Sú niðurstaða hefur þó að svo stöddu engar frekari afleiðingar í för með sér fyrir hið brotlega fyrirtæki eða forsvarsmenn þess, sem er mjög lýsandi fyrir erfiða stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Neytendur í þessum sporum eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns en jafnvel þá eru afleiðingarnar litlar og ekki gripið til neinna aðgerða til að hindra áframhaldandi brot gegn öðrum neytendum í sambærilegri stöðu,“ segja hagsmunasamtökin og hvetja til þess að innheimtulög verði endurskoðuð og þeim breytt þannig starfsemi innheimtufyrirtækja verði gerð leyfisskyld í öllum tilvikum, burtséð frá því hvort eigendur þeirra séu lögmenn eða ekki.

„Fjármálastarfsemi af þessum toga verður að lúta opinberu eftirliti og nauðsynlegt er að brot gegn réttindum neytenda á fjármálamarkaði hafi einhverjar afleiðingar fyrir brotlega aðila. Jafnframt er nauðsynlegt að eignarhald slíkra fyrirtækja verði rannsakað með tilliti til leyfisskyldu, þar á meðal hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra með hliðsjón af lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, enda verður slík starfsemi að standast ýtrustu kröfur þar að lútandi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka