Kompaní, viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is, stóð í morgun fyrir morgunverðarfundi. Yfir 100 gestir sóttu fundinn sem þótti afar vel heppnaður.
Aðalgestur fundarins var Orri Hauksson, forstjóri Símans. Í samtali við Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, ræddi hann um þær áskoranir sem stjórnendur tæknifyrirtækja standa frammi fyrir í síkviku umhverfi þar sem tækniframfarir og hörð samkeppni er allsráðandi.
Að samtalinu loknu steig Eyþór Ingi Gunnlaugsson á svið og söng nokkur vel valin lög ásamt því að segja sögur sem lögðust einstaklega vel í gesti. Sagðist hann aldrei hafa stigið á svið svo snemma dags og því síður reynt að syngja lög hljómsveitarinnar Queen fyrir hádegi. Uppskar hann lófaklapp og hlátur viðstaddra.
Í yfirferð sinni um tæknimarkaðinn ræddi Orri m.a. um enska boltann, íslenskuvæðingu snjalltækja og uppsetningu 5G-kerfis hér á landi. Sagði hann að sú uppbygging yrði sennilega hægari hér á landi en sumstaðar annars staðar þar sem fyrir væru mjög öflugir innviðir hér á landi, m.a. öflugt ljósleiðaranet sem verið væri að leggja um landið.
Orri sagði einnig mikilvægt fyrir fyrirtæki á borð við Símann að leggja áherslu á þjónustu sem alþjóðlegu tæknirisarnir geta ekki veitt. Það fælist m.a. í að framleiða íslenskt sjónvarpsefni sem oft nyti mikilla vinsælda. Spurður út í hvað væri á döfinni í þeim efnum hjá Símanum minntist Orri m.a. á þáttaröðina Atlantis Park sem fjallar um skemmtiferð Íslendinga til Púerto Ríkó sem snýst upp í harmleik þegar þriggja ára tvíburar úr hópnum hverfa af hótelinu þar sem hann dvelur og finnast svo látnir nokkrum vikum síðar. 25 árum síðar dúkkar svo upp bandarísk kona sem fullyrðir að hún sé annar tvíburanna. Leyndarmál um hvað raunverulega gerðist á Hótel Atlantis koma svo upp á yfirborðið.
Þetta er þó ekki það eina sem Síminn er með á prjónunum. Þannig verður m.a. tekin í sýningu ný sería sem nefnist Jarðarförin mín. Í henni leikur Þórhallur Sigurðsson, Laddi, dauðvona mann sem tekur þá furðulegu ákvörðun að standa fyrir og mæta í sína eigin útför. Hið undarlega gerist að hann fer þá fyrst að lifa lífinu lifandi. Glassriver framleiðir þættina og þeim er leikstýrt af Kristófer Dignus sem einnig skrifar handrit ásamt öflugum hópi fólks.
Viðskiptaklúbbi Morgunblaðsins og mbl.is er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og læra af reynslu annarra sem þekkja hvað það er að reka fyrirtæki á Íslandi.