Japanski bifreiðaframleiðandinn Nissan hefur höfðað mál á hendur fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, Carles Ghosn, og krefur hann um 90 milljónir dollara í skaðabætur, eða sem nemur rúmum 11,4 milljörðum króna.
Ghosn er sakaður um skattsvik, að hafa ekki gefið réttar upplýsingar um laun sín og fyrir að hafa notað eignir fyrirtækisins til persónulegra nota utan vinnutíma. Hann var upphaflega handtekinn í Tókýó 19. nóvember 2018 og ákærður fyrir fjármálamisferli. Þann 6. mars í fyrra var honum sleppt gegn tryggingu en handtekinn aftur í byrjun apríl vegna nýrra saka. Hann var fljótlega eftir það látinn laus gegn tryggingu og sat í stofufangelsi frá þeim tíma, allt þar til hann flúði með dularfullum hætti frá Tókýó til Beirút í Líbanon í lok síðasta árs.
Stjórnendur Nissan segjast vilja fá til baka hluta þess fjármagns sem fyrirtækinu varð af vegna gjörða Ghosn.
Ghosn segir Nissan halda áfram í herferð sinni gegn honum. Fyrirtækið hyggst einnig lögsækja Ghosn vegna „ástæðulausra og ærumeiðandi“ ummæla sem hann lét falla á blaðamannafundi í Beirút eftir að hann flúði þaðan frá Tókýó.