„Loksins fékk ég að segja frá“

Ghosn á blaðamannafundi í Beirút.
Ghosn á blaðamannafundi í Beirút. AFP

Carlos Ghosn, fyrrum forstjóri Nissan og Renault í Japan segist vorkenna þeim sem lenda í japanska réttarkerfinu. Ghosn var fyrst handtekinn á flugstöðinni í Tókýó í desember 2018 fyrir misferli sem forstjóri Nissan. Hann smyglaði sér úr landi 2019 áður en dómstólar náðu að taka mál hans fyrir og er hann eftirlýstur af Interpol í dag.

Ghosn var síðast framkvæmdastjóri bílaframleiðendasamsteypu Nissan, Mitsubishi og Renault í Japan en hafði áður stýrt fjölda fyrirtækja víðs vegar um heim. Hann var þekktur sem eins konar reddari og var valinn viðskiptamaður ársins í Asíu af Fortune árið 2003. 

Vantaldi eigin laun

Árið 2018 var Ghosn sakaður um að hafa vantalið eigin laun og hagnýtt sér sjóði fyrirtækja sinna og þannig hagnast um hundruð milljóna króna. Hann var handtekinn og seinna settur í stofufangelsi á meðan rannsókn málsins stóð. Hann vissi sem var að sakfellingarhlutfall í Japan er um 99,4% en Ghosn átti allt að 15 ára fangelsisvist yfir höfði sér. 

„Ég þurfti að venjast lífi án nútíma þæginda í varðhaldi. Ekkert úr, engin tölva eða sími og engar fréttir. Ég mátti ekki einu sinni vera með penna,“ segir Ghosn í viðtali við BBC.

Flúði til Líbanon

Ghosn greip til þess ráðs að flýja Japan á meðan mál hans var til rannsóknar og leita skjóls í heimalandsinu sínu, Líbanon, þrátt fyrir að vera í farbanni. Hann verslaði sér vegna þessa hversdagsleg klæði og tók hraðlestina frá Tókýó til Osaka.

Þar fór hann á hótel og brá sér ofan í hljómtækjatösku. Tveir bandarískir feðgar þóttust þá vera tónlistarmenn á ferðalagi og fermdu lokaðri töskunni, með Ghosn innanborðs, upp í einkaþotu. 

Þegar vélin var komin á flugbrautina gat Ghosn stigið upp úr töskunni og gengið um vélina sem frjáls maður. Þá hafði hann setið í töskunni í eina og hálfa klukkustund sem hann sagði hafa liðið eins og eitt og hálft ár.

Feginn að geta sagt frá

Vélin flaug með Ghosn til Tyrklands en þaðan var förinni heitið til Beirút. Líbanon er ekki með framsalssamning við Japan og Ghosn hefur haldið sig þar síðan. „Loksins fékk ég að segja frá því sem gekk á,“ segir Ghosn.

Interpol gaf nýverið út alþjóðlega handtökuskipan á hendur Ghosn en samverkamenn hans við flóttann hafa þegar verið handteknir og framseldir til Japans: „Ég finn til með öllum fórnarlömbum gíslatöku-réttarkerfisins í Japan, hverjum og einum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert