„Við sýnum því skilning að aðstæður fyrirtækisins eru krefjandi og eigum í samtali við Rio Tinto til þess að fá sameiginlega sýn á stöðu mála.“ Þetta er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningu vegna mögulegrar lokunar álversins í Straumsvík.
Greint var frá því í morgun að Rio Tinto hyggst hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík til að meta rekstrarhæfi þess til framtíðar og leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu þess.
Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun.
„Við höfum sagt og teljum áfram að raforkusamningurinn sé sanngjarn fyrir báða aðila og að það séu fleiri þættir en raforkuverðið sem hafa áhrif á þeirra stöðu en þetta erum við að greina nánar í sameiningu,“ er enn fremur haft eftir Herði.
Forstjórinn sagði í samtali við mbl.is í nóvember að aðstæður á markaði væru það sem gerði fyrirtækjum erfitt fyrir um þessar mundir en ekki orkuverð sem boðið er upp á hér á landi.
„Álverð og verð á kísilmálmi hefur verið mjög lágt um þessar mundir og hefur verið núna um nokkra stund og gerir öllum framleiðendum mjög erfitt fyrir, bæði hér heima og erlendis. Við svoleiðis aðstæður eru mjög fáir að auka framleiðsluna. Verð á málmmörkuðum þarf bara að vera hærra. Þetta er mjög óeðlilega lágt verð og markast mjög mikið af viðskiptastríði á milli Bandaríkjanna og Kína og á meðan það er þannig þá eiga allar verksmiðjur í heiminum erfitt uppdráttar,“ sagði Hörður þá.
Í tilkynningu Landsvirkjunar er bent á að aðstæður á álmörkuðum séu mjög krefjandi um þessar mundir, meðal annars út af lágu álverði, minni eftirspurn og mikilli framleiðsluaukningu í Kína undanfarin ár. Auk þess hafi álverið í Straumsvík lent í rekstrarerfiðleikum sem hafi haft áhrif á afkomu þess.