Landsvirkjun hefur óskað formlega eftir því við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að trúnaðarákvæðum verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna þannig að hægt verði að ræða opinberlega um meginefni samningsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það æskilegt og í anda gagnsæis að almenningur verði upplýstur um hvað standi í samningnum.
„Við teljum æskilegt og í anda gagnsæis að það væri upplýst meira um samninginn og þess vegna skrifuðum við bréf til Rio Tinto í síðustu viku þar sem við höfum óskað formlega eftir því við fyrirtækið að trúnaði sé aflétt af samningnum,“ er haft eftir Herði í tilkynningunni.
Eins og þekkt er hefur Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, tilkynnt að leitað sé leiða til þess að bæta rekstur álversins í þeim krefjandi aðstæðum sem nú eru uppi á álmörkuðum og hefur sjónum meðal annars verið beint að raforkusamningnum við Landsvirkjun.
Landsvirkjun og álverið í Straumsvík hafa átt í viðskiptasambandi frá stofnun þess síðarnefnda. Núgildandi raforkusamningur milli Landsvirkjunar og Rio Tinto hefur verið í gildi síðan 2010 og var endurskoðaður 2014.